Enski boltinn

Wenger kennir dómaranum um töpuð stig

NordicPhotos/GettyImages

Arsene Wenger segir að dómarinn hafi rænt sína menn tveimur stigum í dag þegar lið hans Arsenal gerði markalaust jafntefli við granna sína í Tottenham á White Hart Lane.

Wenger segir að "ímyndað brot" sem dæmt var á Emmanuel Eboue hafi reynst liði sínu örlagaríkt. Eboue kom boltanum í netið á 15. mínútu en markið var dæmt af vegna brots.

Eboue var svo rekinn af velli þegar skammt var til hálfleiks, en Wenger hafði ekki jafn mikið við þann dóm að athuga.

"Þetta var löglegt mark en það var dæmt af vegna þess að dómarinn sá ímyndað brot. Ég hef skoðað þetta þrisvar í sjónvarpi og ég get enn ekki séð hvað dómarinn sá athugavert við þetta. Dómarinn dæmdi á Eboue en í raun var það Jonathan Woodgate sem hrasaði á Emmanuel Adebayor og féll í jörðina. Þetta er óásættanlegt. Ég hef ekkert á móti dómaranum, en þessi stóra ákvörðun hans var röng," sagði Wenger eftir leikinn.

Um brottrekstur Eboue hafði Wenger þetta að segja. "Ef hann sparkaði frá sér átti hann skilið að vera rekinn af velli. Við munum skoða þetta atvik," sagði Wenger.

Harry Redknapp stjóri Tottenham leit einnig þannig á leikinn að um tvö töpuð stig hefði verið að ræða, enda hans menn í bullandi fallbaráttu en náðu ekki að nýta sér liðsmuninn á heimavelli.

"Við vorum miklu betri þegar jafnt var í liðunum og eftir að þeir urðu tíu, en þeir gerðu okkur erfitt fyrir og það var mjög erfitt að brjóta þá niður," sagði Redknapp.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×