Dirty Dancing stjarnan Patrick Swayze er á leiðinni á fætur aftur eftir að hafa verið rúmliggjandi vegna lungnabólgu í viku.
„Ég er á lífi og hef ekkert í hyggju að breyta því," hefur tímaritið People eftir Swayze. Hann vísar því alfarið á bug að hann sé á leiðinni í gröfina, líkt og Gróa á Leiti hefur haldið staðfastlega fram að undanförnu. Swayze greindist með krabbamein í brisi fyrir ári síðan.
En hjartaknúsarinn var sum sé lagður síðast inn 9. janúar síðastliðinn. Sú innlögn kom þannig til að Swayze hafði þrálátan hósta sem hann gat með engu móti losnað við. Hann ákvað því að leita til læknis þar sem hann greindist með lungnabólgu. En með hjálp sýklalyfja er Swayze á batavegi.
