Innlent

Koma verður í veg fyrir landflótta

Gæta þarf jafnvægis milli skattlagningar og niðurskurðar til að koma í veg fyrir landflótta að mati formanns fjárlaganefndar Alþingis. Hann segir þó óhjákvæmilegt að aðhaldaðgerðir ríkistjórnarinnar bitni á heimilunum með einum eða öðrum hætti.

Ríkisstjórnin þarf að spara tæpa 180 milljarða króna á næstu þremur árum. Nú þegar hafa verið boðaðar skattahækkanir - meðal annars hækkun virðisaukaskatts á matvælum sem og hækkun hátekjuskatts og tekjuskatts.

Fram kom í fréttum Stöðvar tvö í gær að skattbyrðin á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu mun aukast um 90 þúsund krónur á mánuði þegar skattahækkanir í aðgerðaráætlun stjórnvalda verður komin að fullu til framkvæmdar.

Samkvæmt Benedikt Jóhannessyni, stærðfræðingi og ristjóri Vísbendingar, er ekki útilokað að mörg heimili muni einfaldlega gefast upp og flýja land.

Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar Alþingis, segir ljóst að verði ekki reynt að ná tökum á ríkisfjármálum nú muni það einungis bitna á næstu kynslóð.

Gæta þarf jafnvægis milli skattlagningar og niðurskurðar til að koma í veg fyrir landflótta, að mati Guðbjarts. Hann segir þó óhjákvæmilegt að aðhaldaðgerðir ríkistjórnarinnar bitni á heimilunum með einum eða öðrum hætti.

Halli ríkissjóðs nemur nú 500 milljónum króna á hverjum degi. Vaxtagreiðslur ríkissjóðs hafa aukist gríðarlega og munu aukast enn frekar ef ekki verður gripið til aðgerða strax.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×