Innlent

Segir Gunnar njóta víðtæks stuðnings meðal sjálfstæðismanna

Formaður Sjálfstæðisfélags Kópavogs segir Gunnar Birgsson bæjarstjóra njóta víðtæks stuðnings meðal sjálfstæðismanna í bænum og ekki var minnst orði á umdeilt viðskiptamál dóttur hans á fulltrúaráðsfundi sjálfstæðisfélaganna í Kópavogi í gærkvöldi.

Háar verktakagreiðslur, yfir fimmtíu milljónir króna, sem dóttir bæjarstjórans í Kópavogi hefur fengið frá bænum frá árinu 2000, hafa vakið athygli. Fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Kópavogi fundaði í gærkvöldi en að sögn Jóhanns Ísbergs, formanns Sjálfstæðisfélags Kópavogs, var þetta mál ekki rætt. Jóhann segir að á dagskrá fundarins hafi verið stjórnmálviðhorfið eftir kosningar og starfið framundan en ekki hafi verið minnst á málefni bæjarstjórans, Gunnars Birgissonar. Jóhann kveðst aðspurður telja að Gunnar njóti víðtæks stuðnings meðal sjálfstæðismanna í Kópavogi og telur málið í eðlilegum farvegi í höndum endurskoðanda bæjarins.

Þá virðist sem þetta mál muni ekki leiða til þess að framsóknarmenn slíti meirihlutasamstarfinu við sjálfstæðismenn, miðað við orð Ómars Stefánssonar, oddvita framsókmnarmanna, í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöld. Hann sagði þar að samstarfið við sjálfstæðismenn hafi verið farsælt undanfarin ár en ekki væri hægt að útiloka neitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×