Innlent

Sýknaður af ákæru um kynferðisbrot gegn fatlaðri stjúpdóttur

Héraðsdómur Reykjaness sýknaði á mánudaginn karlmann af ákæru fyrir kynferðislegt ofbeldi gegn fatlaðri stjúpdóttur sinni. Karlmaðurinn var sakaður um að hafa sett fingur í leggöng og/eða nuddað kynfæri hennar innanklæða. Hann hafi notfært sér að stúlkan ákærði sér það að hún gat ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans vegna andlegrar fötlunar sinnar.

Það var hinn 16. október 2007 sem lögreglu barst erindi frá Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra þess efnis að upp væri kominn grunur um að tvítugur skjólstæðingur þeirra hefði orðið fyrir kynferðisbroti af hálfu stjúpföður síns og að óskað væri eftir rannsókn á þessum grun.

Stúlkan hafði sagt tveimur starfsmönnum skammtímavistunarinnar, sem hún var vistuð á, frá því að stjúpfaðir hennar hafi snert kynfæri hennar og komið upp í rúm til hennar. Móðir hennar var upplýst um það sem komið hafði fram í samtölum stúlkunnar við starfsmennina. Í því samtali hafði móðirin upplýst, ráðgjafa svæðisskrifstofunnar, um að sambýlismaður hennar hefði verið dæmdur fyrir kynferðisbrot fyrir 20 árum.

Í dómi Héraðsdóms Reykjaness kemur fram að ákærði hafi neitað sök. Ágætt samræmi sé á framburði brotaþola hjá lögreglu og fyrir dómi og í málinu liggi ekkert fyrir sem fari í bága við framburð hennar annað en neitun ákærða. Við mat á trúverðugleika frásagnar hennar beri þó að hafa í huga að samkvæmt framburði vitna, sem komu fyrir dóminn, eigi hún það til að spinna ævintýra- og ýkjusögur og gerir ekki alltaf skýran greinarmun á ævintýraheimi sínum og raunveruleikanum. Engin sérfræðigögn hafi verið lögð fram í málinu sem benda til þess brotaþoli hafi orðið fyrir kynferðisbroti og ekkert þeirra vitna, sem kom fyrir dóminn, hafi getað borið um að breytingar hefðu orðið á hegðun eða andlegri líðan brotaþola eftir ætlað atvik.

Þá bendir dómurinn á að samkvæmt meðferð sakamála hvíli sönnunarbyrðin um sekt sakbornings og atvik, sem telja megi honum í óhag, á ákæruvaldinu. Sakaratriði málsins séu í raun ekki við önnur gögn að styðjast en framburð brotaþola. Með hliðsjón af því og öðru framangreindu verði ekki talið gegn neitun ákærða að ákæruvaldinu hafi tekist að sanna svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi sýnt af sér þá háttsemi sem honum er gefin að sök í málinu. Verði ákærði því sýknaður af öllum kröfum ákæruvalds.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×