Erlent

Hákarlar í sundkeppni

Tveir hákarlar blönduðu sér í stóra sundkeppni sem haldin var undan strönd Sydney í Ástralíu í dag. Hákarlarnir höfðu sjöhundruð sundmenn til að velja úr og svo virðist sem þeir hafi ekki getað ákveðið sig.

Hákarlaárásir eru ekki óalgengar í Ástralíu og stjórnendur Lífvarða-sundkeppninnar í Sydney urðu því skiljanlega órólegir þegar þeir sáu tvo hákarla synda innan um sundmennina.

Annar var myndarlegur sleggjuhákarl en hinn var nokkuð minni. Stjórnendurnir voru í vafa um hvort ráðlegt væri að gefa hættumerkið þar sem það gæti valdið hópskelfingu.

Þeir reyndu því að hrekja hina óboðnu gesti á braut með því að nálgast þá á bátum. Þyrla steypti sér einnig niður að sleggjuhákarlinum.

Líklega hefur það dugað því enginn var étinn. Keppendurnir voru þó ekkert uppveðraðir þegar þeir fréttu af hákörlunum.

Einn þeirra sagði; Fjárinn sjálfur, ég vildi að ég hefði vitað af þeim. Þá hefði ég örugglega sett heimsmet.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×