Erlent

Clinton frelsaði bandarískar blaðakonur

Bill Clinton.
Bill Clinton.

Leiðtogi Norður - Kóreu, Kim Jong Il, hefur náðað tvær bandarískar blaðakonur sem þar eru í haldi, aðeins nokkrum klukkustundum eftir að Bill Clinton, fyrrum forseti Bandaríkjanna, kom í óopinbera heimsókn þangað.

Heimsókn Bill Clintons var afar óvænt en hann er sennilega frægastur til þess að heimsækja Norður - Kóreu síðan árið 2000 en þá heimsótti Madeleine Albright útlagaríkið alræmda.

Bandarísk yfirvöld sögðu í fréttum í dag að heimsókn Clintons væri einkaheimsókn, hann væri ekki þar á vegum ríkisstjórnarinnar.

Menn telja það þó ekki alrétt. Bandarísk yfirvöld, reyndar flest siðuð ríki veraldar, hafa haft talsverðar áhyggjur af eldflaugatilraunum Norður-Kóreumanna. Að auki hafa Norður-kóresk yfirvöld haldið því fram að þau eigi kjarnorkuvopn.

Þess trúa þó Bandaríkin ekki.

Clinton átti fund með Kim Jong Il, leiðtoga Norður - Kóreu í dag. Þar bað hann að blaðakonurnar tvær yrðu látnar lausar. Að auki hitti Clinton þær á fundi sem mun hafa verið mjög dramatískur.

Konurnar voru handteknar fyrr á árinu vegna gruns um njósnir og dæmdar í 12 ára þrælkunarvinnu í landinu. Þær störfuðu fyrir fjölmiðil sem var stofnaður af Al Gore, fyrrum forsetaframbjóðanda. Talið er að þær hafi ætlað að flytja fréttir frá Norður - Kóreu. Báðar eru þær af asískum uppruna.

Clinton er farinn af landi brott og er á leiðinni til Bandaríkjanna.

Norður - kóreska fréttarstofur, sem eru allar undir járnhæl yfirvalda, segja Clinton hafa grátbeðið um að konurnar yrðu náðaðar og beðist alúðlega afsökunar á gjörðum þeirra. Þá segja fréttir þar í landi að hugsanlega sé eitthvað að þokast til í samskiptum Norður - Kóreu og Bandaríkjanna.

Þessu öllu er neitað af talsmönnum Hvíta hússins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×