Innlent

Sagði Kjartan gáfaðan og uppskar gagnrýni

Mörður Árnason, varaþingmaður Samfylkingarinnar.
Mörður Árnason, varaþingmaður Samfylkingarinnar. MYND/ Valgarður Gíslason

Mörður Árnason, varaþingmaður Samfylkingarinnar, sagði Kjartan Ólafsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, meðal rökföstustu og gáfuðustu snillinga á þingi í umræðum um störf Alþingis í dag. Siv Friðleifsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, og Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndu Mörð fyrir orðin.

Þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í umhverfisnefnd mynduðu meirihluta í gærkvöldi þegar þingsályktunartillaga um hagsmuni Íslendinga í loftslagsmálum var afgreidd út úr nefndinni.

Vitleysisfrumvarp

Árni Mathiesen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gerði athugasemd við það í upphafi þingfundar í dag að meirihlutinn hafi kallað eftir fundi í umhverfisnefnd í fimm daga til að ræða þingsályktunartillöguna.

Mörður sagði hryllilegt að Árni hafi haft miklar áhyggjur af fundartíðni í umhverfisnefnd. Jafnframt kallaði hann tillöguna vitleysisfrumvarp og sagði það vera tillögu meirihluta þingmanna um frekari mengun og samninga sem ekki standist.

Atli Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, sagði nefndina hafa fjallað um þingsályktunartillöguna með eðlilegum hætti. Hann sagði jafnframt að tillagana væri óþarfi.

Brýnt að virða vilja meirihlutans

Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður utan flokka, sagði brýnt að virða vilja meirihluta Alþingis. Það olli honum vonbrigðum að þingmenn sem áður gagnrýndu meirihlutann fyrir valdhroka hagi sér nokkrum vikum síðar alveg eins og þeir sem þeir gagnrýndu áður.

Siv segir að Mörður eigi að skammast sín

Íslenska ákvæðið er umhverfisvænt, að sögn Sivjar Friðleifsdóttur þingflokksformanns Framsóknarflokksins. „Það er betra fyrir lofthjúpinn að samþykja svona ákvæði heldur en ekki. Þetta er það einfalt að það blasir við öllum." Hún sagði að Mörður ætti að skammast fyrir að segja að tillagan væri vitleysisfrumvarp.

Þá sagði Siv Mörð vega að Kjartani sem hafi staðið sig vel. Hún sagði greinilegt að málflutningur Kjartans og fleiri vera það öflugan að Mörður kjósi að niðurlægja þingmenn í röðum.

„Bæði Kjartan og Ólafsson og alla þá sem standa að tillögunni og það er meirihluti þingmanna. Ég tel að Mörður Árnason ætti að skammast sín," sagði Siv.

Þingmenn kippa sér ekki við ummæli Marðar

Hugsunin að baki þingsályktunartillögunni er ábyrg stefna íslenskra stjórnvalda vegna þess að hún er ekki einungis góð fyrir Ísland heldur allan heiminn, að sögn Illuga Gunnarssonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins.

Illugi sagðist tak undir með öðrum þingmönnum varðandi ummæli Marðar og sagði þau ekki smekkleg. „Ég held það sé nú svo að hér í þessum þingsal að menn kippa sér ekki upp við slík ummmæli háttvirts þingmanns. Hann hefur vakið athygli hér í þingsölum fyrir ummæli af þessum toga."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×