Innlent

Þurfti stífkrampasprautu og penisilín

Litli hvolpurinn er heill á húfi.
Litli hvolpurinn er heill á húfi.

Tveir kettir réðust á Jóngeir Þórisson, eiganda skiltagerðarinnar Pamfíls, þegar hann var á gangi með smáhundinn sinn, fimm mánaða gamla hvolpinn Polla, við Hjallaveg fyrir ofan Kleppsveg um kvöldmatarleytið á þriðjudaginn í síðustu viku.

„Við vorum að labba og sáum þá gráan, úfinn kött sem var frekar druslulegur. Hann gekk að Polla með kryppuna upp í loftið og sló í hann," segir Jóngeir. Annar köttur sem var eins í útliti kom að þeim og hugðist einnig ráðast að Polla.

„Ég tók hvolpinn þá í fangið. Þá ruku kettirnir á fæturna á mér og klóruðu mig og bitu til blóðs," segir Jóngeir. Eina vopn hans var að sparka frá sér. Við það hörfuðu þeir en réðust aftur að honum. „Ég þurfti að fara á Læknavaktina og fékk penisilín og stífkrampasprautu." Hann segir líklegt að um hafi verið að ræða flækingsketti eða vanrækta heimilisketti. „Ég hefði ekki viljað að krakki hefði verið í mínum sporum," segir Jóngeir sem hyggst aðhafast frekar í málinu. Hann lét lögregluna strax vita og ætlar að hafa uppi á eigandanum, ef einhver er.

Guðmundur Björnsson hjá dýraeftirliti umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkur segir ekki algengt að kettir ráðist á fólk. Það komi þó fyrir. Hann segir komið undir þolandanum hvort hann kæri eða ekki.- vsp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×