Innlent

Verið 22 daga erlendis á árinu

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, var 128 daga erlendis allt árið 2007, en hefur verið 22 daga erlendis það sem af er ári.Fréttablaðið/GVA
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, var 128 daga erlendis allt árið 2007, en hefur verið 22 daga erlendis það sem af er ári.Fréttablaðið/GVA

Forseti Íslands hefur alls verið 22 daga erlendis fyrstu sex mánuði ársins. Á sama tímabili á síðasta ári var forsetinn tvöfalt fleiri daga erlendis, og nærri þrefalt fleiri á sama tímabili árið 2007.

Örnólfur Thorsson forsetaritari segir að af þeim 22 dögum sem Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hefur verið erlendis það sem af er ári hafi níu dagar verið ferðalög tengd starfinu, annað hafi verið frí.

Í fyrra var Ólafur Ragnar alls 88 daga erlendis, þar af 53 á fyrstu sex mánuðum ársins, að því er fram kemur á vef stjórnartíðinda. Árið 2007 var forsetinn 128 daga erlendis, þar af 60 daga á fyrri helmingi ársins.

Örnólfur segir það ekki endilega efnahagsástandið sem valdi því að utanlandsferðum forsetans hafi fækkað, heldur séu tilefnin fyrir ferðalögum misjöfn milli ára.

Spurður hvort embættinu hafi verið sett einhver takmörk á utanlandsferðir segir Örnólfur svo ekki vera. Forsetanum séu sett takmörk fjárhagslega hvað varðar rekstur embættisins, og á síðustu árum hafi embættið verið rekið með umtalsverðum afgangi.

Forsetinn ákveður sjálfur hvaða utanlandsferðir hann fer, en hefur samráð við ríkisstjórn um opinberar heimsóknir, segir Örnólfur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×