Innlent

Breytingar í utanríkisráðuneytinu

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Kristín A. Árnadóttir, nýr skrifstofustjóri upplýsingamála.
Kristín A. Árnadóttir, nýr skrifstofustjóri upplýsingamála.
Skrifstofa upplýsingamála var sett á laggirnar í utanríkisráðuneytinu þann 8. júní í kjölfar skipulagsbreytinga. Kristín A. Árnadóttir, sem áður stýrði sameinaðri skrifstofu utanríkisráðherra og -ráðuneytisstjóra, hefur nú verið færð til í starfi og stýrir hinni nýju skrifstofu. Engin tilkynning var gefin út af hálfu ráðuneytisins um þessar skipulagsbreytingar.

Í nóvember 2008, þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gegndi starfi utanríkisráherra, var hluti af hagræðingaraðgerðum ráðuneytisins að sameina skrifstofur ráðherra og ráðuneytisstjóra undir skrifstofu yfirstjórnar. Kristínu var þá falið að stýra hinni nýju skrifstofu yfirstjórnar. Hún hafði áður verið aðstoðarmaður Ingibjargar sem borgarstjóra og stýrt bæði skrifstofu borgarstjóra og framboði Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna eftir það. Nú hefur skrifstofa yfirstjórnar verið aflögð.

Samkvæmt tölvupósti sem starfsmönnum utanríkisráðuneytisins var sendur um þessar breytingar koma þær til vegna aukinnar áherslu á markvissa miðlun upplýsinga frá utanríkisráðuneytinu. Í tölvupóstinum segir meðal annars:

„Með [skrifstofu upplýsingamála] er leitast við að efla starf ráðuneytisins á sviði ímyndar, orðspors og upplýsingamála."

„Bankahrunið síðastliðið haust hefur gjörbreytt stöðu og ímynd Íslands á alþjóðavettvangi og því ljóst að ímyndaruppbygging verður eitt forgangsverkefna á komandi misserum. Þessum þætti mun skrifstofan einnig sinna í samstarfi við önnur ráðuneyti og stofnanir stjórnarráðsins. Skrifstofan fer með upplýsingamiðlun, orðspors- og kynningarmál, auk tengdra menningarmála, borgaraþjónustu sem og önnur almenn verkefni er ganga þvert á skipulag utanríkisþjónustunnar."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×