Innlent

Tollar á landbúnaðarvörur lækki

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu segir óhagstætt gengi krónunnar og ofurtolla skapa einokun í framleiðslu landbúnaðarvara.Fréttablaðið/Pjetur
Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu segir óhagstætt gengi krónunnar og ofurtolla skapa einokun í framleiðslu landbúnaðarvara.Fréttablaðið/Pjetur

Landbúnaðarráðuneytið hefur nú auglýst innflutningskvóta á landbúnaðarvörur eftir að Samtök verslunar og þjónustu mótmæltu ákvörðun ráðuneytisins frá 19. júní um að auglýsa ekki kvótana til umsóknar.

Kvótarnir eru samkvæmt samningum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Tollar á kvótana eru nú með breyttu sniði en að sögn Andrésar Magnússonar, framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu, breytir það litlu hvað varðar þá vöruflokka sem skipti mestu máli, eins og osta og kjúklinga. Hins vegar setji óhagstæð þróun á gengi krónunnar strik í reikninginn.

„Stjórnvöld fara með þessa tolla í hæstu hæðir sem þau hafa heimild til og það mun sennilega enginn bjóða í þessa kvóta því það verður ekki hægt að bjóða vöruna á samkeppnishæfu verði,“ segir Andrés sem kveður bagalegt fyrir íslenska neytendur að Jón Bjarnason landbúnaðarráðherra hafi þá yfirlýstu stefnu að gera allt sem hann geti til að koma í veg fyrir að hér verði innfluttar landbúnaðarvörur.

„Þetta skapar einokun fyrir íslenska framleiðendur sem munu að óbreyttu sitja einir að þessum markaði. Það þýðir færri vörutegundir á óhagstæðara verði enda er það lögmál að einokun ýtir undir hærra verð. En stjórnvöld hafa í hendi sér að koma til móts við íslenska neytendur og lækka tolla á þessum vörum,“ segir Andrés Magnússon.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×