Enski boltinn

63 mínútum frá heimsmeti

Elvar Geir Magnússon skrifar

Edwin van der Sar, markvörður Manchester United, er aðeins 63 mínútum frá því að setja heimsmet. Þessi 38 ára leikmaður hefur ekki fengið á sig mark í ensku úrvalsdeildinni síðan United tapaði fyrir Arsenal í byrjun nóvember.

Um helgina bætti hann breskt met þegar United vann 1-0 útisigur á West Ham. Næsti deildarleikur er gegn Fulham, fyrrum félagi Van der Sar, og er ljóst að heimsmet verður sett ef United fær ekki á sig mark fyrstu 63 mínútur leiksins. Abel Resino á núgildandi met sem hann setti á sínum tíma með Atletico Madrid í spænsku deildinni.

„Ég er í sannleika sagt orðinn nokkuð leiður á umtalinu um öll þessi met. Kannski mun ég hleypa inn einu eða tveimur mörkum í næsta leik," sagði Van der Sar í gríni en hann hefur haldið hreinu í 1.212 mínútur í deildinni.

„Það er alltaf gaman að setja met en þetta met verður ekki verðmætt fyrr en þegar tímabilinu lýkur. Við stefnum á að verja Englandsmeistaratitilinn og fögnum þessu meti ekki nema ef það tekst," sagði Van der Sar og ítrekaði það að hann ætti ekki allan heiðurinn af þessum árangri heldur varnarvinna liðsins í heild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×