Innlent

Vantraust á Morgunblaðið margfaldast eftir komu Davíðs

Breki Logason skrifar
Davíð Oddsson og Haraldur Johannessen nýráðnir ritstjórar Morgunblaðsins.
Davíð Oddsson og Haraldur Johannessen nýráðnir ritstjórar Morgunblaðsins.
Traust til Morgunblaðsins hrynur eftir að Davíð Oddsson og Haraldur Johannessen settust í stól ritstjóra fyrir skömmu, ef marka má könnun á trausti til fjölmiðla sem Markaðs- og miðlarannsóknir ehf. gerðu fyrir 365 miðla nýverið. Rúmlega 35% þeirra sem svöruðu segjast bera frekar eða mjög lítið traust til Morgunblaðsins, en rúmlega 13% sögðust gera það rétt áður en nýir ritstjórar tóku við. Fréttastofa Rúv nýtur mest trausts.

Þann 20. september síðast liðinn, gerði MMR nákvæmlega eins könnun þar sem sama aðferð og sömu spurningar voru lagðar fyrir þá sem tóku þátt. Í þeirr könnun sögðust 57,9% bera frekar eða mjög mikið traust til Morgunblaðsins. Nú er þessi tala komin niður í 39,8%.

Í nýju könnuninni segjast 6,8% bera frekar eða mjög lítið traust til Fréttastofu Rúv en rúm 75% segjast bera frekar eða mjög mikið traust til hennar. Þetta eru svipaðar tölur og í könnuninni 20.september.

Sömuleiðis eykst vantraust á mbl.is samkvæmt könnuninni. 28,7% segjast bera frekar eða mjög lítið traust til fréttavefsins samanborið við 11,4% í fyrri könnuninni. 43% þeirra sem svöruðu bera frekar eða mjög mikið traust en sú tala var í tæpum 60%.

Fréttastofa Stöðvar 2 nýtur svipaðs traust á milli kannanna eða rúm 37%. Það sama er að segja um þá sem bera frekar eða mjög lítið traust til fréttastofunnar, nú er sú tala í 22% en var í 23,6% í fyrri könnuninni.

31,4% bera frekar eða mjög mikið traust til Fréttablaðsins samanborið við 38,1% í fyrri könnuninni en 27,7% segjast nú bera frekar eða mjög lítið traust til Fréttablaðsins. Í fyrri könnunninni voru það 22,4%.

Þá minnkar traust á visir.is en einungis 19% svarenda bera frekar eða mjög mikið traust til Vísis samanborið við 26,8% í síðustu könnun. Þá segjast 33,9% bera frekar eða mjög lítið traust til Vísis en 29,8% svarenda sögðust gera það í fyrri könnuninni.

Hægt er að sjá nýjustu könnun MMR sem fylgiskjal með þessari frétt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×