Innlent

Spuni og ofbeldi í stað rökréttrar umræðu

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins sagði að sú stefnuræða sem forsætisráðherra hefði haldið í kvöld hefði allt eins getað verið flutt fyrir ári síðan. Ástæðu þess sagði hann að ekkert hefði gerst síðan hrunið varð. Sigmundur sagði Samfylkinguna stunda ófrægingarherferð sem hefði kristallast í fréttum Rúv í kvöld.

Fyrst hefði verið löng frétt um það hvernig Ögmundur Jónasson og fylgdarsveinn hans væri að eyðileggja þessa ríkisstjórn og fella hana. Síðan hafi verið viðtal við erlendan prófessor, sem einhver úr Samfylkingunni hefði fundið, sem hélt því fram að þessir Icesavesamningar væru býsna góðir og menn ættu að skrifa undir hann.

„Svona var fréttaflutningur kvöldsins og það er enginn tilviljun. Svona vinnur Samfylkingin og beitir spuna og ofbeldi í stað rökréttrar umræðu," sagði Sigmundur meðal annars.

Hann sagði að þetta væri fólkið sem ætlaði að breyta vinnubrögðum í íslenskri pólitík og auka samráð stjórnmálaflokka. Staðan væri hinsvegar þannig að það væri ekki einu sinni samráð innan ríkisstjórnarinnar. Það hefði komið best í ljós þegar iðnaðarráðherra hefði ekki vitað af boðuðum orkusköttum í fjárlagafrumvarpinu.

„Þetta er staðan og það er afleitt að staðan sé þessi."

Hann sagði það staðreynd að fyrsta almennilega vinstristjórnin í landinu hefði komið þjóðinni undir arma Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem væri uppfullur af sinni hægri sinnuðu og frjálshyggjustefnu.

„Við verðum að reyna að læra af sögunni því einungis þannig getum við verið sátt við okkur, þegar upp er staðið," sagði Sigmundur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×