„Já þetta lítur ekki vel út, 4-1. Mér fannst við vera inni í leiknum þegar svona korter var eftir í stöðunni 1-1. Þá var í raun bara spurning hvar þriðja markið myndi detta. Svo þegar það kemur þá eiginlega bara brotnum við," sagði Haukur Ingi Guðnason eftir 4-1 tap Keflvíkinga gegn KR í kvöld.
Keflvíkingarnir voru ekki svipur hjá sjón í fyrri hálfleik og sóknarleikurinn enginn. „Það er alveg rétt. Við létum ekki boltann ganga nógu hratt og vorum ekki að gera það sem við erum góðir í," sagði Haukur.
Í seinni hálfleik náðu Keflvíkingar góðum tuttugu mínútna kafla og jöfnuðu metin á 71. mínútu. „Mér leið í rauninni ágætlega þegar korter var eftir af leiknum. Staðan var orðin 1-1 og ég hafði góða tilfinningu fyrir því að við gætum allavega náð í eitt stig og hugsanlega þrjú. Þetta þriðja mark þeirra gerir hins vegar alveg útaf við okkur," sagði Haukur og viðurkennir að tapið hefði getað verið enn stærra.
Aðspurður hvort hann héldi að Keflvíkingar ættu eftir að vera lengi að jafna sig á þessum úrslitum svaraði hann: „Nei alls ekki. Eftir svona leiki vill maður helst spila aftur á morgun. Bæði til að bæta sjálfum sér og áhorfendum upp."