Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra óskaði eftir lengri fresti til þess að móta hugmyndir um aðkomu lífeyrissjóðanna og sveitarfélaga að kaupum á hlut Orkuveitunnar í HS Orku. Guðlaugur Sverrisson stjórnarformaður OR segir ekki hægt að verða við beiðninni. Tilboð Magma Energy í hlutinn rennur út klukkan fimm í dag.
Fjármálaráðherra fundaði með fulltrúum lífeyrissjóða og Grindavíkurbæjar um þessi mál í morgun og að sögn upplýsingafulltrúa fjármálaráðuneytisins er vilji til þess að koma að málinu. Þeir aðilar hafi hins vegar ekki treyst sér til þess að koma með tilboð í dag. Þess vegna hafi verið óskað eftir lengri tíma til þess að vinna að málinu.
Guðlaugur Sverrisson stjórnarformaður Orkuveitunnar staðfestir í samtali við Vísi að farið hafi verið fram á lengri frest. „Þeir töldu sig þurfa lengri tíma en þeir vissu líka að Magma þurfti að gefa út yfirlýsingu í kauphöllinni í Toronto þegar fyrri fresturinn var gefinn út og að þeir geta ekki gefið út aðra slíka yfirlýsingu samkvæmt reglum þar á bæ. Þeir geta því ómögulega orðið við því að veita lengri frest," segir Guðlaugur. Hann bendir á að þegar hafi verið veittur tíu daga frestur fyrir utan að ferlið hafi verið í gangi síðastliðið hálft ár.
Stjórnarfundur verður haldinn í Orkuveitunni klukkan eitt í dag. „Ef ekkert tilboð kemur frá stjórnvöldum býst ég við að ganga til samningum við Magma," segir Guðlaugur. Hann segist eiga von á því að minnihlutinn verði á móti í málinu en að meirihlutinn muni halda. „Við verðum að verja Orkuveituna eins og hægt er," segir Guðlaugur.