Sport

Guðjón gagnrýndi stuðningsmenn Crewe

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðjón Þórðarson, knattspyrnustjóri Crewe.
Guðjón Þórðarson, knattspyrnustjóri Crewe. Nordic Photos / Getty Images

Guðjón Þórðarson gagnrýndi stuðningsmenn Crewe nú fyrr í vikunni eftir að liðið tapaði fyrir Dagenham & Redbridge í fyrst umferð ensku D-deildarinnar um helgina.

Crewe féll úr C-deildinni nú í vor eftir hetjulega baráttu en Guðjón tók við liðinu um áramótin.

„Það kom mér á óvart hvernig stuðningsmennirnir létu í hálfleik," sagði Guðjón en margir þeirra púuðu á leikmenn Crewe er þeir gengu til búningsklefa sinna.

„Stuðningsmenn eiga að styðja liðið sitt. Ef þeir gera það ekki geta þeir ekki flokkast sem stuðningsmenn."

„Sumir leikmannanna segja að það sé betra að spila á útivelli því það eru sannir stuðningsmenn sem ferðast með liðinu á útileikina," bætti Guðjón við í samtali við enska fjölmiðla.

Crewe tapaði svo í gær fyrir B-deildarliði Blackpool á heimavelli, 2-1, í fyrstu umferð ensku deildabikarkeppninnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×