Erlent

Fjörutíu handteknir í Kaupmannahöfn

Lögreglan hefur komið upp búrum þar sem handteknum verður komið fyrir, en hún hefur mikinn viðbúnað í kjölfar loftslagsráðstefnunnar. Fyrri viku ráðstefnunnar er að ljúka.nordicphotos/afp
Lögreglan hefur komið upp búrum þar sem handteknum verður komið fyrir, en hún hefur mikinn viðbúnað í kjölfar loftslagsráðstefnunnar. Fyrri viku ráðstefnunnar er að ljúka.nordicphotos/afp

Um tvö hundruð mótmælendur voru á götum miðborgar Kaupmannahafnar í gær þar sem forstjórar stórfyrirtækja funduðu um loftslagsmál. Fundur þeirra var ekki á opinberri dagskrá loftslagsráðstefnunnar en tengdur henni, líkt og fjöldi annarra. Mótmælendur börðu bumbur og hrópuðu að forstjórunum.

Lögreglan hafði mikinn viðbúnað eins og hún reyndar hefur haft alla vikuna. Fjörutíu mótmælendur voru handteknir. Engar fregnir höfðu borist af ofbeldisverkum, en Henrik Moeller Nielsen, talsmaður lögreglunnar, sagði að fólkið hefði verið handtekið til að fyrirbyggja ofbeldi. Lögreglan í Kaupmannahöfn hefur fengið auknar heimildir til handtöku í tengslum við ráðstefnuna. Þá hefur hún komið fyrir búrum í Valby, úthverfi Kaupmannahafnar, þar sem koma má fyrir 346 föngum.

Fjöldi viðburða hefur verið í tengslum við ráðstefnuna, bæði á vegum skipuleggjenda og almennings. Fólk hefur nýtt sér athyglina til ýmissa mótmæla, bæði tengdum loftslagsmálum og öðrum, svo sem herferð í Afganistan. Mótmælin hafa gengið átakalaust fyrir sig hingað til.

Í dag er boðað til svokallaðs alþjóðadags aðgerða og er búist við allt að 60 þúsund manns í göngu sem leggur upp frá Kristjánsborg klukkan 13, að staðartíma. Gengið verður að Bella Center, þar sem ráðstefnan fer fram. Yfirvöld eru við öllu búin, en gangan á að vera friðsöm. Á morgun er boðað til annarrar göngu, sem líklega verður fámennari, en ekki er eins víst að hún verði friðsöm.

Allt er enn í járnum á ráðstefnunni sjálfri og deila Bandaríkjamenn og Kínverjar ákaft um hvernig fylgst verður með útblæstri gróðurhúsalofttegunda í mismunandi löndum. Nokkuð er deilt um kostnað, en nefnt hefur verið að langtímakostnaður við að verja þróunarríki fyrir áhrifum hlýnunar jarðar geti hlaupið á 100 milljörðum evra árlega, um 18.300 milljörðum íslenskra króna að núvirði.

kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×