Erlent

Hermenn lýsa eigin framferði

Rústirnar fjarlægðar Enn er verið að vinna í rústunum sem árásir Ísraela skildu eftir sig á Gasa í vetur.
fréttablaðið/AP
Rústirnar fjarlægðar Enn er verið að vinna í rústunum sem árásir Ísraela skildu eftir sig á Gasa í vetur. fréttablaðið/AP

Á þriðja tug ísraelskra hermanna, sem tóku þátt í árásunum á Gasasvæðið um síðustu áramót, viðurkenna að ísraelski herinn hafi beitt óþarfa afli og kraftmiklum vopnum sem urðu fleiri almennum borgurum að bana en ella hefði orðið.

Sömuleiðis segja þeir ísraelska herinn hafa notað almenna borgara á Gasasvæðinu sér til varnar, þrátt fyrir að ísraelsk stjórnvöld hafi ítrekað sakað Palestínumenn um sams konar athæfi.

Þetta kemur fram í skýrslu frá ísraelskum mannréttindasamtökum sem nefnast „Þögnin rofin“. Samtökin eru skipuð varaliðum úr ísraelska hernum, sem eru ósáttir við stefnu Ísraels gagnvart Palestínumönnum.

Ísraelsku hermennirnir, sem játa fyrrgreind brot, eru ekki nafngreindir í skýrslunni. Samtökin segja það gert til að vernda hermennina, en fullyrða jafnframt að þeir séu fúsir til að koma fram undir nafni ef opinber rannsókn verður gerð.

Ísraelsk stjórnvöld segja ekkert hæft í þessum ásökunum. Skýrslan sé ómarktæk og samtökin breiði út óhróður um ísraelska herinn og yfirmenn hans.

„Ísraelsher er einn siðfágaðasti her í heimi og starfar samkvæmt ströngustu siðareglum,“ segir Ehud Barak varnarmálaráðherra. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×