Innlent

Fullkomin óvissa um frestun þingfunda fyrir kosningar

Fullkomin óvissa ríkir um frestun þingfunda fyrir kosningar, eftir að leiðtogum stjórnarflokkanna mistókst í dag að ná samkomulagi við stjórnarandstöðuna um afgreiðslu þingmála. Samkomulag náðist hins vegar um að tilkynna kjördag með formlegum hætti á Alþingi á morgun, þannig að utankjörfundaratkvæðagreiðsla geti hafist.

Lokahöndin verður væntanlega lögð á síðasta málið um gjaldþrotaskipti fyrir heimili og fleira á ríkisstjórnarfundi á morgun. En leiðtogar stjórnarinnar leggja áherslu á að um tuttugu mál hljóti afgreiðslu áður en þing fer heim fyrir kosningar. Forsætisráðherra dregur að tilkynna um þingrof meðan ekki liggur fyrir samkomulag við stjórnarandstöðuna um afgreiðslu mála, en hámarksfrestur um tilkynningu þingrofs rann upp í dag.

Á fundi með formönnum flokkanna, sem Birkir Jón Jónsson sat fyrir hönd formanns Framsóknarflokksins, kynntu leiðtogar stjórnarflokkanna hvaða mál það eru sem megináhersla er lögð á.

Umdeildasta málið er stjórnlagafrumvarið. Sjálfstæðismenn leggjast gegn því en eru þó opnir fyrir málamiðlun, með því að samþykkja ákvæðið um hvernig stjórnarskrá verði breytt í framtíðinni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×