Innlent

Fimmtán prósent geta knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu

Fimmtán prósent kjósenda geta knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um mál og breytingar á stjórnarskrá fara allar í þjóðaratkvæði samkvæmt frumvarpi sem allir flokkar á Alþingi nema Sjálfstæðisflokkur standa að.

Alþingi lauk á miðvikudag fyrstu umræðu um hið umdeilda stjórnlagafrumvarp, sem 36 þingmenn af 63 standa að, það er allir þingflokkar nema þingflokkur Sjálfstæðisflokks og Kristinn H. Gunnarsson sem er utan þingflokka. Umræður stóðu um frumvarpið fram yfir klukkan ellefu í gærkvöldi, en Sjálfstæðismenn töluðu þar nánast einir, enda mjög óánægðir með flest í frumvarpinu og aðdraganda þess.

Ef frumvarpið verður að lögum verða nokkrar grundvallarbreytingar á stjórnarskrá Íslands hvað varðar aðkomu almennings. Í einni af fjórum greinum þess er gert ráð fyrir að 15 prósent kosningabærra manna geti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um mál eða lög, eða 30 þúsund manns miðað við fjölda kjósenda nú. Skal þá málið sett í þjóðaratkvæðagreiðslu innan þriggja mánaða.

Ef meirihluti kjósenda samþykkir breytingu sem krafist er, skal forseti Íslands staðfesta hana, með þeim fyrirvara að minnst 25 prósent kjósenda standi á bakvið meirihlutann. Ekki verður þó hægt að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um fjárlög, fjáraukalög, skattalög og lög um þjóðréttarskuldbindingar.

Þá verður breyting stjórnarskrár einfölduð með lögunum. Nú er stjórnarskrá þannig að ef Alþingi samþykkir breytingu á stjórnarskránni, skal þegar rjúfa þing og boða til kosninga. Stjórnarskrárbreyting tekur síðan ekki gildi fyrr en nýtt þing hefur samþykkt hana. Með nýju lögunum yrði það þjóðin sem greiðir atkvæði um stjórnarskrárbreytingr. Ef Alþingi samþykkir slíkar breytingar, skulu þær settar í dóm þjóðarinnar innan þriggja mánaða og ef 25 prósent allra kjósenda samþykkir breytinguna, tekur hún gildi.

Að auki fjalla lögin um náttúruauðlindir í þjóðareign og stjórnlagaþing til heildarendurskoðunar á stjórnarskránni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×