Innlent

L-listi náði kjöri í trúnaðarráð

Kristinn Örn Jóhannesson, nýr formaður VR, tekur við á aðalfundi í apríl.
Kristinn Örn Jóhannesson, nýr formaður VR, tekur við á aðalfundi í apríl.

Kristinn Örn Jóhannesson var í gær kjörinn nýr formaður VR. Kristinn Örn hlaut tæp 42 prósent greiddra atkvæða og var því nokkuð öruggur. Lúðvík Lúðvíksson fékk 30 prósent atkvæða Gunnar Páll Pálsson, fráfarandi formaður, hlaut fæst atkvæði, eða 28 prósent.

Algjör endurnýjun varð í trúnaðarmannaráði VR í kosningunum en L-listi Lúðvíks og stuðningsmanna hans náðu kjöri. Kristinn Örn segir að sín bíði nú að setja sig betur inn í starfsemi og málefni félagsins, ræða við starfsfólk og stjórnarmenn VR og leggja línur framtíðarinnar.

„Það var mjög óvænt að allt trúnaðarráðið datt út þannig að það verður af mörgu að taka. Staðan er talsvert öðruvísi en ég bjóst við því að ég átti von á að trúnaðarráðið yrði að stærstu leyti óbreytt,“ segir hann.

Kristinn Örn tekur við formennskunni á aðalfundi í byrjun apríl og segir ekki ljóst hvort hann verði í fullu starfi hjá VR sem formaður eða ekki. Hann segist hafa lýst því yfir áður að helst vilji hann sjá formenn launþegahreyfingarinnar sem launþega sjálfa en „hvort það er raunhæft get ég ekki fullyrt á þessu stigi“, segir hann.

Hátt í þriðjungur félagsmanna VR, eða tæplega 7.000 manns, greiddi atkvæði í kosningunni. - ghs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×