Innlent

Heimili rýmd í gær og varðskip til taks

Úr myndasafni.
Úr myndasafni.

„Menn hafa verið að kanna snjóalög undanfarna daga og meta að það sé veikt millilag í Traðargili," segir Elías Jónatansson, bæjarstjóri í Bolungarvík, þar sem fimm íbúðarhús voru rýmd fyrir kvöldmat í gær.

Þar sem hættuástandi var lýst yfir á Vestfjörðum vegna snjóflóðahættu voru varðskip Landhelgisgæslunnar og danskt varðskip í nágrenni við Ísland einnig beðin að færa sig nær Vestfjörðum. Áætlað er að skipin æfi saman á morgun.

„Ef millilagið sem snjórinn hvílir á gefur sig er hætta á að ekkert hald verði og allt fari af stað," útskýrir Elías. „Eins og alltaf fylgja þessu óþægindi fyrir fólk en það sýnir þessu samt mikinn skilning. Viðbrögðin eru orðin svo þjálfuð að það er enginn ótti í gangi. Rýmingin núna kom reyndar á óvart af því að það hefur ekki verið ofankoma hérna í byggðinni en það mun samt hafa bæst í snjóinn uppi í gili."

Elías segir viðbrögðin einfaldlega sýna að vel sé fylgst með snjóflóðahættu og að kerfið virki mjög vel. Veðurstofan meti upplýsingar og taki ákvörðun um rýmingu. „Það er alls enginn smeykur en öryggi er fyrir öllu," segir bæjarstjórinn.

Fólkið sem yfirgefa þurfti heimili sín fékk ýmist inni hjá ættingjum eða í íbúðum sem bærinn útvegar þeim. - gar






Fleiri fréttir

Sjá meira


×