Innlent

Sagan endurtekur sig frá því síðast

Nýir formenn munu leiða Framsóknarflokkinn, Samfylkinguna og Sjálfstæðisflokkinn í kosningunum í apríl. Sama var upp á teningnum í kosningunum vorið 2007.

Enn er óvíst hverjir verða formenn Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Geir H. Haarde sækjast ekki eftir endurkjöri.

Síðustu kosningar voru þær fyrstu - og einu - sem Ingibjörg og Geir fóru fyrir flokkum sínum. Bæði tóku við formennsku árið 2005, tveimur árum fyrir kosningar. Nú láta þau af embættum aðeins fáum vikum fyrir kosningar.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var kjörinn formaður Framsóknarflokksins í janúar. Hann tók við af Valgerði Sverrisdóttur sem tók við af Guðna Ágústssyni sem tók við af Jóni Sigurðssyni sem fór fyrir flokknum í kosningunum 2007.

Nýir varaformenn verða einnig í brúnni hjá Framsókn og Samfylkingu. Birkir J. Jónsson er nýr varaformaður Framsóknar en kosið verður um varaformann Samfylkingarinnar á landsfundi síðar í mánuðinum. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sækist eftir endurkjöri.

Guðni Halldórsson býður sig fram gegn Guðjóni A. Kristjánssyni, formanni Frjálslynda flokksins, en kosið verður á landsþingi um næstu helgi. Ekki er við öðru að búast en að Steingrímur J. Sigfússon verði áfram formaður Vinstri grænna.

- bþs






Fleiri fréttir

Sjá meira


×