Innlent

Ólafur Ragnar og Dorrit rífast í blaðaviðtali

Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussiaeff á góðri stundu.
Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussiaeff á góðri stundu.
Forsetafrúin Dorrit Moussiaeff segist hafa varað við efnahagshruninu á Íslandi lengi vel í viðtali við glanstímaritið Condé Nast Portfolio. Langt viðtal við þau birtist í marshefti tímaritsins.

Blaðamaður Portfolio lýsir hvernig Dorrit og Ólafur Ragnar Grímsson fara í hár saman þegar forsetafrúin lýsir því yfir að hún hafi beinlínis reynt að fá aðstoð vegna hugsanlegra efnahagserfiðleika árið 2006. Þegar á viðtalinu stóð var boðið upp á lax og hvítvín.

Varaði við hruninu

„Ég hef varað við þessu [efnahagslegu hruni Íslands] í langan tíma, og ég hef sagt það í hvert sinn sem banki opnaði á síðasta ári," segir forsetafrúinn við matarborðið.

Eiginmaður Dorritar, Ólafur Ragnar brást heldur ókvæða við þessum orðum konu sinnar og sagði: „Já, en það má ekki hafa þetta eftir þér."

Dorrit bregst þá reiðilega við og spyr: „Hver segir það?"

Ólafur svarar þá: „Ég segi það, algjörlega."

En Dorrit lætur sér ekki segjast og heldur ótrauð áfram: „Árið 2006, þegar við borðuðum hádegisverð, sagði ég fyrir framan Jeffrey Sachs, getur þú ekki gert eitthvað í þessu? Getur þú ekki fengið alþjóðgjaldeyrissjóðinn til þess að koma hingað og sjá hvað er að gerast?" sagði Dorrit en Jeffrey Sachs er virtur hagfræðingur við Columbia háskólann í Bandaríkjunum.

Blaðamaður tímaritsins bar orð Dorritar undir hagfræðinginn sem sjálfur kannast ekki við það, þó hann viðurkenni að hafa starfað með Ólafi þetta sama ár.

„Dorrit," segir Ólafur Ragnar þá með hvassri röddu, „þú getur samt ekki sagt þetta."

„Ég var að segja það," svaraði Dorrit þá.

„Já, en þú mátt það samt ekki, þú bara mátt það ekki," áréttar Ólafur Ragnar og segir við blaðmann tímaritsins að þetta megi ekki hafa eftir henni.

Síðar í greininni lýsir blaðamaður því þegar Dorrit hringir í hann og segir blaðamanninum, sem heitir Joshua Hammer, að honum sé frjálst að hafa þetta allt saman eftir henni, sem og hann gerir.

Eiga fátt sameiginlegt

Í viðtalinu lýsir Joshua því hversu ólík Dorrit og Ólafur Ragnar séu, hann sé rólegur maður sem skemmtir sér konungleg á spjalli um umvherfismál við Al Gore, á meðan hún sé félagströll í Bretlandi, umkringd frægum og ríkum vinum.

„Við eigum ekkert sameiginlegt nema það að við tölum bæði ensku og við elskum að fara á skíði," lýsti Dorrit sambandi sínu og sameiginlegum áhugamálum forsetahjúanna.

Hún bætti svo við: „Mér leiðast stjórnmál."

Samkvæmisstaða Dorritar óbreytt

Þegar forsetahjónin eru spurð út í Gordon Browm, forsætisráðherra Bretlands, og þá ákvörðun að beita hryðjuverkalögum á íslenska banka, segir Dorrit að þar með hafi Gordon svikið persónulega vináttu sína við Ólaf Ragnar fyrir pólitískan ávinning. Ólafur tekur undir þessi orð og bætti við dramatískur: „Þetta hefur breytt sýn minni á Gordon Brown til frambúðar."

Ólafur segir að ákvörðun breska forsætisráðherrans hafi einnig haft áhrif á vináttu Söru Brown, eiginkonu Gordons, og Dorritar. Þær hafa verið ötular við að safna pening fyrir góðgerðamál og borða stundum saman við slík tilefni. Vinkona Dorritar, sem er hluti af yfirstétt Bretlands, staðfestir við blaðamann tímaritsins að ákvörðun Browns hafi ekki haft áhrif á stöðu Dorritar í samkvæmislífi Bretanna.

Enginn missir húsið sitt

Ólafur Ragnar viðurkennir í viðtalinu að næstu ár munu verða Íslendingum erfið. Hann segir að það sé grundvallaratriði að húsnæðismál Íslendinga verði tryggð og bætir við að þúsundir munu sennilega missa heimili sín. Dorrit er í engu sammála þessu og sakar hann um að vera allt of svartsýnn. Upphefst þar með annað rifrildi þeirra á milli.

„Elskan, ég er ósammála þér," segir Dorrit og heldur áfram: „Enginn mun missa húsið sitt. Hvernig geta þeir misst húsin sín í landi þar sem má finna tvöfalt meira af húsum en fólki?"

„Dorrit, þú mátt ekki segja þetta," svaraði Ólafur þá.

Dorrit hélt áfram: „En þeir munu ekki geta selt húsin hvort eð er [...] Ég lofa þér að enginn Íslendingur muni verða heimilislaus hér á landi. Hvað mig varðar, þá er það augljóst."

„Dorrit, þú mátt ekki segja þetta, þú hreinlega mátt það ekki," sagði Ólafur Ragnar.

„Ég mun segja þetta. Hingað til hef ég haft rétt fyrir mér um allt það sem ég hef sagt."

Þá var stutt í fræðimanninn Ólaf sem svaraði konu sinni af hörku: „Þú getur vissulega sagt þetta. En þú hefur engan grundvöll til þess að halda þessu fram. Hvað þetta varðar hefur þú enga sérfræðiþekkingu til þess að halda þessu fram. Þú þekkir ekkert til íslenskra húsnæðislaga."

Dorrit gaf ekki undan og hélt áfram: „Hvað ætla þeir eiginlega að gera? Skilja þúsundi húsa eftir mannlaus?"

Dorrit skildi Ólaf eftir nokkuð orðlausan og hann bað hana um leyfi til þess að fá að halda áfram. Dorrit var hinsvegar ekki á þeim skónum, hún hélt ótrauð áfram: „Þegar ég er búinn. Það eru þúsundir íbúða þarna úti."

Ólafur Ragnar stöðvaði hana og sagði: „Í fyrsta lagi, Dorrit, þá er fjöldi heimilanna ekki aðalatriðið."

„Elskan," segir Dorrit og reynir að endurheimta orðið en Ólafur Ragnar grípur frammi í fyrir henni.

„Dorrit, Dorrit," sagði hann en missti orðið aftur til hennar.

„Það er enginn að fara bera fólk út. Ég skal segja ykkur afhverju. Enginn annar getur flutt inn í þessi hús. Og allir bankamenn eru..."

Ólafur greip aftur frammi í fyrir henni og sagði: „Dorrit, Ekki segja svona hluti."

Líður eins og kúgaðri eiginkonu

Blaðamaður tímaritsins lýsir því þegar hann sér mótmæli á Austurvelli á laugardegi. Hann segir Dorrit hafa litið til sín með öfundaraugum og sagt:

„Mig langar mjög mikið til þess að mótmæla, en eiginmaður minn leyfir mér það ekki. Ég er eins og eiginkona araba," sagði Dorrit sem þráði að slást í hóp mótmælanda en fékk ekki.

Hægt er að lesa greinina í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×