Innlent

Tónlistararfur Íslands í hættu

Hildigunnur Rúnarsdóttir stjórnarformaður og Sigfríður Björnsdóttir starfsmaður óttuðust að ómetanlegur skaði hefði hlotist af eldinum.
fréttablaðið/valli
Hildigunnur Rúnarsdóttir stjórnarformaður og Sigfríður Björnsdóttir starfsmaður óttuðust að ómetanlegur skaði hefði hlotist af eldinum. fréttablaðið/valli

Slökkviliðsmennirnir eru búnir að fullvissa mig um að handritin hafi sloppið,“ sagði Sigfríður Björnsdóttir, starfsmaður Íslensku tónverkamiðstöðvarinnar, sem var við störf í Síðumúla 34 þegar eldur braust út í húsinu í gær. Grátandi tjáði hún blaðamanni á vettvangi að hún hafi verið viss um að um 80.00 þúsund handrit af íslenskum tónverkum væru orðin eldi að bráð. „Ef illa hefði farið hefði þetta verið óbætanlegur skaði fyrir íslenska menningarsögu. Þetta er fyrir tónlist þjóðarinnar eins og það væri fyrir sögu listmálunar að kviknaði í Listasafni Íslands. Þarna eru til dæmis handrit Jóns Leifs.“

Hildigunnur Rúnarsdóttir, stjórnarformaður ÍT og tónskáld, staðfestir orð Sigfríðar. „Það eru verk frá 1920 til þessa dags, þó einstaka handrit séu eldri. Nú viljum við bara komast í nýtt húsnæði. Það er löngu orðið tímabært að móta heildstæða stefnu um það starf sem tónskáld hafa unnið að í fjörutíu ár. Það hefur lengi verið talað við fjárveitingarvaldið um að fá eldheldar geymslur undir þessi verðmæti. Á það hefur ekki verið hlustað.“

Fyrir um áratug kviknaði í húsi samföstu Síðumúla 34 þar sem gallerí í eigu Péturs Þórs Gunnarssonar, eiganda Gallerís Borgar, var til húsa. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×