Innlent

Samtök Fjármálafyrirtækja vara við spilliforriti á netinu

Mynd úr safni
Mynd úr safni
Að undanförnu hefur borið á spilliforriti á Netinu, svokölluðum Nadebanker Trójuhesti, sem dreifir sér í gegnum veraldarvefinn, fylgist með tölvunotkun og sækir upplýsingar í tölvur notenda í þeim tilgangi að misnota þær. Spilliforritinu virðist m.a. ætlað að komast yfir aðgangsupplýsingar netbankanotenda. Ekkert fjárhagstjón hefur orðið hér á landi til þessa af völdum Nadebanker, en reynslan frá nágrannaríkjum Íslands kennir að mikilvægt er að gæta fyllsta öryggis við netnotkun til að koma í veg fyrir slíkt.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samtökum Fjármálafyrirtækja. Þar segir ennfremur að ljóst sé að öryggi tölva margra netnotenda sé ábótavant og þær liggi því vel við höggi tölvuþrjóta. Af þessu tilefni vilja Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) ítreka fyrir netnotendum að tryggja að tölvur þeirra hafi viðurkennda vírusuvörn og að stýrikerfi og önnur forrit séu ávallt með nýjustu uppfærslum.

Dæmi um forrit sem Nadebanker hefur notað sem smitleið eru Adobe Acrobat, Apple Quick Time, Real Player og Java.

„Rétt er að árétta að íslensk fjármálafyrirtæki standa mjög framarlega á sviði öryggismála og er sú vinna í stöðugri þróun undir forystu SFF. SFF eiga í nánu samstarfi við Póst- og fjarskiptastofnun, lögreglu og fleiri aðila um aðgerðir til að tryggja áframhaldandi öryggi í netviðskiptum og koma í veg fyrir að spilliforrit sem þetta valdi tjóni."



Hvað geta tölvunotendur gert?


Á heimasíðu SFF má finna gátlista um gagnaöryggi á netinu með upplýsingum um hvað ber almennt að varast við netnotkun og meðferð aðgangsupplýsinga. Einnig eru góðar upplýsingar um netöryggi að finna á www.netoryggi.is.

Þá er rétt að árétta fyrir notendum netbanka að fylgjast reglulega með stöðu yfirlits og sannreyna að upplýsingar séu réttar áður en greiðsla í netbanka er samþykkt. Allir notendur netbanka sem ekki eru með nýjustu uppfærslur á forritum og stýrikerfi og uppfærðar vírusvarnir eru í áhættuhópi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×