Innlent

Eiga 113 sumarhúsalóðir og 107 íbúðir

Eignir bankanna.
Eignir bankanna.

Nýji Kaupþing og Íslandsbanki eiga samanlagt 107 húseignir. Ekki fengust upplýsingar um eignir Landsbankans. Meðal annarra eigna bankanna eru 70 bifreiðar, 3 hesthús og 3 íbúðahúsalóðir.

Berghildur Erla Bernharðsdóttir, upplýsingafulltrúi Nýja Kaupþings, segir að með versnandi efnahagsástandi hafi bæst nokkuð í eignasafn bankans og erfitt sé að segja til um nákvæmt verðmat eignanna. Hún segir að nokkrar af þeim átján sumarhúsalóðum og sextán sumarhúsum sem bankinn á hafi komið til vegna lána til verktaka.

Fram kemur í svari Gunnar Kristinn Sigurðsson frá upplýsingasviði Íslandsbanka að bankinn sé með um 70 bifreiðar í söluferli. „Eignum bankans hefur fjölgað eins og viðbúið var í kjölfar versnandi efnahagsástands. Hinsvegar er mikilvægt að hafa í huga að flest slík mál eiga sér langan aðdraganda, oft eitt ár aftur í tímann,“ segir Gunnar.

Hann segir að lóðir í eigu bankans koma bæði til vegna lána til einstaklinga og rekstraraðila. Gunnar segir ómögulegt að gefa upp verðmæti eignasafnsins.

Samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum hefur eign bankans aukist nokkuð frá hruni bankakerfisins í október. Eignasafnið samanstendur afmestmegnis af húseignum, íbúðalóðum og sumarhúsalóðum. Ekki fengust nákvæmar tölur um eign bankans þrátt fyrir ítrekarðar fyrirspurnir.

Fyrr í mánuðinum var greint frá því að Landsbankinn hafi fest kaup á 45 sumarhúsalóðum á uppboði í Grímsnesinu. Auk þess keypti Landsbankinn 26 sumarhúsalóðir og átta sumarhús á uppboði fyrr í vor á sama svæði. Því er ljóst að bankinn hefur eignast að minnsta kosti 71 sumarhúsalóðir og átta sumarhús.

Þar að auki eiga Kaupþing og Íslandsbanki 34 sumarhúsalóðir og 17 sumarhús. Ljóst er því að heildareign bankanna þriggja er að minnsta kosti 113 sumarhúsalóðir og 25 sumarhús.

bta@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×