Fótbolti

Hver verður leikmaður ársins?

Kaka þótti bestur árið 2007
Kaka þótti bestur árið 2007 AFP
FIFA útnefnir leikmann ársins á mánudaginn. Hér á eftir fer samantekt um þá sem tilnefndir eru sem knattspyrnumenn ársins 2008.

Flestir búast við að Cristiano Ronaldo hjá Manchester United bæti enn einum verðlaununum í safnið á mánudaginn þegar FIFA útnefnir knattspyrnumann ársins.

Auk Portúgalans frábæra eru þeir Xavi Hernandez og Fernando Torres úr liði Evrópumeistara Spánverja tilnefndir og svo Suður-Ameríkumennirnir Leo Messi hjá Barcelona og Kaka hjá AC Milan.

Cristiano Ronaldo, Manchester United
Ronaldo skoraði í úrslitaleik MeistaradeildarinnarAFP
Allir knattspyrnuáhugamenn hafa skoðun á portúgalska undrinu Cristiano Ronaldo, hvort sem þeir bölsótast yfir leikrænum tilburðum hans og sérvisku eða dásama stórkostleg tilþrif hans í sókninni.

Ronaldo hefur yfir að ráða líkamlegum styrk, hraða, er góður í loftinu, skorar mikið af mörkum og á það til að standa sig best þegar mikið er undir líkt og þegar hann skoraði skallamarkið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í vor.

Þegar Ronaldo kom til Manchester United fékk hann það hlutverk að leysa David Beckham af hólmi, en ekki er hægt að segja að þeir séu líkir leikmenn. Á meðan Beckham var fyrst og fremst góður sendingamaður, var Ronaldo fljótur og leikinn brellukarl.

Með árunum hefur skærunum fækkað smátt og smátt og í fyrra festi hann sig í sessi sem markamaskína á heimsmælikvarða. Ronaldo skoraði 42 mörk fyrir Manchester United þó hann spilaði á vængnum og var algjör lykilmaður í sigri liðsins í Meistaradeildinni og ensku úrvalsdeildinni.

Fernando Torres, Liverpool
AFP
El Nino var ekki lengi að vinna hug og hjörtu stuðningsmanna Liverpool þó hann hefði kostað félagið 20 milljónir punda þegar hann kom frá Atletico sumarið 2007.

Stuðningsmenn Liverpool eru ekki óvanir því að fá að horfa á frábæra markaskorara á Anfield, menn á borð við Ian Rush og Kenny Dalglish. Torres er eins og blanda af þessum tveimur. Hann hefur bæði hraða, útsjónarsemi og gott skot eins og góðum framherja sæmir, en hann er líka duglegur til baka og flinkur í spili.

Ekki voru allir á því að Torres hentaði í hörkunni sem fyrirfinnst í ensku úrvalsdeildinni, en hann hefur staðið sig vonum framar og unnið sér inn virðingu mótherja sinna.

Torres skoraði 24 deildarmörk á sinni fyrstu leiktíð með Liverpool og var það met hjá útlendingi á fyrsta tímabili í úrvalsdeildinni. Þar með var Torres ekki hættur því hann skoraði sigurmark Spánverja í úrslitaleiknum á EM í sumar.

Torres hefur átt við nokkur meiðsli að stríða það sem af er þessari leiktíð, en ef hann nær heilsu fljótlega er ljóst að Liverpool á betri möguleika en nokkru sinni á því að verða enskur meistari í fyrsta skipti í tæp 20 ár.

Xavi Hernandez, Barcelona
NordicPhotos/GettyImages
Xavi toppaði fína leiktíð í sumar með því að vera valinn besti leikmaður EM þar sem hann stýrði miðjuspili Evrópumeistara Spánverja með sóma. Hann lagði upp sigurmark Fernando Torres í úrslitaleik keppninnar þar sem Spánverjar lögðu Þjóðverja.

Hinn 28 ára gamli leikstjórnandi hefur lengi verið þekktur fyrir boltatækni sína og sendingagetu sem hefur um árabil verið prímusmótorinn á miðjunni hjá Barcelona. Hann var verðlaunaður með nýjum langtímasamningi fyrir skömmu.

Xavi hefur spilað mjög vel fyrir Barcelona í vetur eins og sést best á því að liðið hefur 11 stiga forskot á toppnum og er að spila miklu betur en í fyrra. Xavi spilar þar stórt hlutverk líkt og hjá spænska landsliðinu, þar sem hann á að baki 68 leiki.

Lionel Messi, Barcelona
AFP
Argentínska undrabarninum Messi hefur mikið verið líkt við landa sinn og goðsögnina Diego Maradona og hann var mættur á Vicente Calderon á dögunum og sá Messi skora þrennu gegn Atletico.

Hinn 21 árs gamli Messi hefur fengið marga af hæfileikum Maradona í vöggugjöf. Hann er leikinn, fljótur og útsjónasamur og skoraði sitt eftirminnilegasta mark á ferlinum til þessa á vormánuðum í fyrra. Mark hans gegn Getafe í konungsbikarnum í apríl þótti nákvæm eftirlíking af marki Diego Maradona gegn Englendingum á HM árið 1986 þar sem hann sólaði hálft liðið upp úr skónum.

Messi fæddist í Rosario í Santa Fe í Argentínu þann 24. júní árið 1987 og gekk í raðir Barcelona aðeins 13 ára gamall. Hann fór á kostum með unglingaliðum Barcelona og það varð til þess að Frank Rijkaard gaf honum sitt fyrsta tækifæri með aðalliðinu í nóvember árið 2003 - aðeins 16 ára að aldri.

Messi lék fyrst með argentínska landsliðinu árið 2005 á móti Ungverjum, en Maradona lék sinn fyrsta leik einmitt gegn Ungverjum þegar hann var aðeins 16 ára gamall á sínum tíma.

Argentínumenn hrepptu gullverðlaun með Messi innanborðs á ÓL í Peking síðasta sumar og mörkin hans 10 í spænsku deildinni í vetur hafa ekki átt lítinn þátt í frábæru gengi liðsins til þessa. Þá hefur hann skoraði mark í leik í Meistaradeildinni það sem af er.

Kaka, AC Milan
AFP
Brasilíski leikstjórnandinn Kaka á væntanlega ekki mjög mikla möguleika á að vinna aftur titilinn leikmaður ársins hjá FIFA líkt og árið 2007, því meiðsli hafa háð honum mikið síðasta ár.

Þegar hinn 26 ára gamli Kaka er heill heilsu er hann venjulega allt í öllu í sterku liði AC Milan þar sem sendingar hans, markaskorun, kraftur og útsjónarsemi drífa sóknarleikinn áfram.

Milan náði aðeins fimmta sæti í A-deildinni síðasta vor og féll snemma út úr Meistaradeildinni, en ef Kaka hefði haldið heilsu allt tímabilið hefði gengi liðsins eflaust verið betra.

Kaka er jafnan þekktur sem eitraður skotmaður, en aukaspyrnur hans og nokkrar vítaspyrnur fóru oftar en ekki farið í súginn á árinu 2008. Kaka gerir enda lítið úr möguleikum sínum til að verða kjörinn leikmaður ársins og hefur fyrir löngu lýst því yfir að Cristiano Ronaldo sé verðugur nafnbótarinnar að þessu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×