Innlent

Skattaskjólin eru ein mesta meinsemdin

Skýr skilaboð. Fullt var út úr dyrum þegar Joly talaði í Háskólanum í Reykjavík í gær. fréttablaðið/Anton
Skýr skilaboð. Fullt var út úr dyrum þegar Joly talaði í Háskólanum í Reykjavík í gær. fréttablaðið/Anton

Efnahagsmál Það er „brandari“ að embætti sérstaks saksóknara sem falið hefur verið að rannsaka hvort eitthvað saknæmt hafi átt sér stað í bankahruninu á Íslandi hafi ekki fleiri en fjórum starfsmönnum á að skipa. Þetta sagði Eva Joly, fyrrverandi rannsóknardómari í Frakklandi, á málfundi í Háskólanum í Reykjavík í gær, þar sem hún flutti erindi um alþjóðlegt flæði fjármagns og þróunarlönd.

Joly hefur áunnið sér alþjóðlega viðurkenningu fyrir baráttu sína gegn spillingu og fjármálaglæpum, en frá árinu 1994 gegndi hún embætti yfirrannsóknardómara, juge d‘instruction, í Frakklandi, en það er embætti sem nýtur sérstakrar verndar enda liggur í hlutarins eðli að sá sem því gegnir lendi uppi á kant við volduga aðila.

Sem rannsóknardómari var Joly lykilmaður í að rekja eitt stærsta spillingarmál sem upp hefur komið í Frakklandi, þar sem olíufélagið Elf Aquitaine, sem þá var í ríkiseigu, var grunað um misferli. Málið leiddi til dóma yfir fjölda háttsettra embættis- og stjórnmálamanna.

Joly rakti í erindi sínu svæsin dæmi um spillingu í kringum auðlindanýtingu í þróunarlöndum, þar sem voldug vestræn fyrirtæki eiga í hlut í flestum tilvikum og arðræna í félagi við spillta valaklíku heimamanna þau fátæku lönd sem í hlut eiga. En hún rakti einnig dæmi um spillingarrannsóknir á Vesturlöndum og erfiðleikana sem þeir sem vinna að slíkum rannsóknum lenda í samkvæmt hennar reynslu. Einn aðalvandinn sé sá að þeir aðilar sem stundi stærstu efnahagsbrotin séu fjölþjóðlegir en þær stofnanir sem hafa vald til að rannsaka slík mál og sækja menn til saka séu bundnar við einstök þjóðríki og þar með aðeins þann hluta viðkomandi efnahagsbrotastarfsemi sem undir lögsögu þess ríkis heyrir.

Sérstök meinsemd í þessu samhengi segir Joly að séu skattaskjól á borð við bresku Jómfrúreyjar, sem gera mönnum með „einbeittan brotavilja“ kleift að skrá skúffufyrirtæki án þess að fram komi hver í raun standi að baki því. Frjálsræðisvæðing hins hnattvædda fjármálakerfis í anda nýfrjálshyggju hafi gert illt verra. Stór hluti verðbréfaviðskipta hafi farið fram með ógegnsæjum hætti í gegnum skúffufyrirtæki í skattaskjólum. Hún bendir á að rússneskir auðjöfrar, sem komust í aðstöðu til að auðgast gríðarlega við einkavæðinguna í kjölfar hruns Sovétríkjanna, hafi með hjálp skattaskjóla komið gríðarlegum fjárhæðum undan, sem með réttu ættu að koma rússneskum almenningi til góða. Joly sagði að það myndi „ekki koma sér á óvart“ ef í ljós kæmi að íslenskir auðjöfrar hefðu komið undan stórfé úr bönkunum föllnu. audunn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×