Innlent

Óvíst með afstöðu þingmanna Framsóknarflokksins

Heimir Már Pétursson skrifar
Þingmenn Framsóknarflokksins. Birkir Jón Jónsson, Vigdís Hauksdóttir og Gunnar Bragi Sveinsson.
Þingmenn Framsóknarflokksins. Birkir Jón Jónsson, Vigdís Hauksdóttir og Gunnar Bragi Sveinsson. Mynd/Stefán Karlsson
Líklegt er að að meirihluti þingflokks Framsóknarflokksins greiði annað hvort atkvæði gegn aðildarumsókn að Evrópusambandinu eða sitji hjá við atkvæðagreiðsluna. Umræðum um aðildarumsóknina var framhaldið á Alþingi í morgun.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins sagði í fréttum okkar í gær að hann myndi ekki greiða atkvæði með tillögu um umsókn Íslands að Evrópusambandinu ef ekki næðust fram breytingar á tillögunni.

„Ég myndi vilja sjá breytingar í þá veru að það væri hnykkt á því að um raunveruleg skilyrði væri að ræða hvað varðar hagsmunina," segir Sigmundur Davíð. Svo fólk tryði því og treysti að menn muni standa vörð um þá og ekki gefa eftir vissa grundvallarþætti. Á því hafi samþykkt flokksþing Framsóknarflokksins byggt og hann vildi sjá menn færa sig nær því sjónarmiði.

Tveir þingmenn Framsóknarflokksins, þau Guðmundur Steingrímsson og Siv Friðleifsdóttir, lýstu því yfir á Alþingi í gær að þau teldu að skilyrðum flokksþings Framsóknarflokksins fyrir aðildarumsókn væri fullnægt í tillögu og nefndaráliti meirihluta utanríkismálanefndar og að þau myndu greiða tillögunni atkvæði sitt.





Sigurður Davíð Gunnlaugsson.Mynd/Anton Brink
„Eins og menn muna kannski úr umræðunni frá því þetta var fyrst samþykkt var það grundvallaratriði að þetta væru skilyrði að hálfu flokksþings. Sumir töldu það reyndar vera það óaðgengileg skilyrði að Framsókn væri í raun og veru ekki hlynnt aðild að Evrópusambandinu," segir Sigmundur Davíð. Aðrir hafi talið skilyrðin mjög aðgengileg. En það væri alveg á hreinu að hans mati að um raunveruleg skilyrði væri að ræða og heilmikil umræða hafi farið fram um þessi mál á flokksþinginu.

Vigdís Hauksdóttir þingmaður Framsóknarflokksins lagði í gær fram breytingartillögu við þingsályktunina eins og hún lítur út í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar. Hún leggur bæði til breytingar á tillögunni sjálfri og nefndarálitinu. Sjaldgæft er að texta í tillögugrein sé breytt mikið í síðari umræðu um þingsályktunartillögur og því verður að teljast ólíklegt að breytingin nái fram að ganga.

Síðari umræða um aðildarumsóknina hófst um hádegi í gær og stóð fram undir miðnætti og hófst aftur klukkan hálf ellefu í morgun. Tuttugu þingmenn eru á mælendaskrá og ekki víst að umræðum ljúki í dag, en forsætisráðherra sagði í fréttum okkar í gær, að hún vonaðist til að hægt yrði að greiða atkvæði um málið á mánudag.

Samkvæmt heimildum fréttastofu eru fimm til sjö af níu þingmönnum Framsóknarflokksins á móti aðildarumsókn á forsendum meirihlutans, en tveir hafa lýst yfir stuðningi sínum eins og áður sagði.


Tengdar fréttir

Ekki útilokað að búið verða sækja um ESB-aðild í næstu viku

Ekki er útilokað að Íslendingar verði búnir að sækja um aðild að Evrópusambandinu fyrir lok næstu viku að mati utanríkisráðherra. Þingsályktunartillaga um aðildarumsókn fer í síðari umræðu á Alþingi á morgun en sjálfstæðismenn ætla að óbreyttu að greiða atkvæði gegn tillögunni.

ESB umsókn líklegast afhent í lok júlí

Líklegt er að umsókn að Evrópusambandinu verði lögð fram á fundi utanríkisráðherra aðildarríkja sambandsins sem fram fer 27. júlí næstkomandi, samkvæmt heimildum fréttastofu. Kristján Guy Burgess, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, segir að málið velti allt á því hvernig mál þróast í þinginu.

Siv og Guðmundur styðja ESB tillöguna

Guðmundur Steingrímsson og Siv Friðleifsdóttir þingmenn Framsóknarflokksins hafa bæði lýst yfir stuðningi við þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar um aðild að Evrópusambandinu.

Birti ESB ummæli þingmanna frá því fyrir kosningar

„Við sem stöndum utan við þingið og fylgjumst með ætlumst til þess að menn fylgi orðum sínum og hugsi um stóru hlutina, en ekki hina smæstu, þegar þeir taka afstöðu í mikilvægum málum," segir Mörður Árnason, fyrrum þingmaður Samfylkingarinnar, í samtali við fréttastofu.

Áfram rætt um aðildarumsókn

Síðari umræða um þingsályktun ríkisstjórnarinnar um aðildarviðræður við Evrópusambandið stóðu fram undir miðnætti í nótt og hefjast aftur klukkan hálf ellefu. Vigdís Hauksdóttir þingmaður Framsóknarflokksins, sem talin er vera mikill andstæðingur Evrópusambands aðildar, lagði í gær fram breytingartillögu við ályktunina, þar sem ítarlegra er farið í skilyrði fyrir aðild í tillögu greininni sjálfri.

ESB á dagskrá þingsins í dag

Þingsályktunartillaga ríkisstjórnarinnar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu verður tekin til síðari umræðu í þinginu í dag. Þingfundur hófst klukkan 10:30 og er aðildarályktunin sjötta mál á dagskrá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×