Enski boltinn

Platini vill herða reglur um eyðslu

Platini vill setja þak á eyðslu knattspyrnufélaga
Platini vill setja þak á eyðslu knattspyrnufélaga Mynd/Stefán

Michel Platini, forseti Knattspyrnusambands Evrópu, hefur óbeit á risatilboðum í knattspyrnumenn og boðar breytingar á leikmannamarkaðnum.

Platini vill þannig reyna að koma í veg fyrir skrípaleik eins og Kaka málið í janúar þar sem moldríkir eigendur setja knattspyrnuheiminn á annan endann með risatilboðum í leikmenn.

Frakkinn er óhress með það hvernig knattspyrnufélög í Evrópu, ekki síst á Englandi, eyða sum hver um efni fram í leikmenn.

"Hvernig í ósköpunum getur maður kostað 150 milljónir punda? Það er fáránlegt í mínum augum. Það er slæmt og það er ekki hægt. Það er einfaldlega ekki raunhæft. Það er allt í lagi að kaupa flugvél eða bát fyrir þennan pening, en ekki mann," sagði Platini í samtali við Sun.

Hann segist vera að smíða tillögu sem kæmi í veg fyrir óhófleg leikmannakaup.

"Ég er að reyna að koma upp kerfi þar sem félögin geta aðeins notað peninga sem þau eiga. Ef maður kaupir Kaka á 150 milljónir punda, þarf hann að borga launin hans ofan á kaupverðið. Ef félagið eyðir upphæð sem fer yfir tekjur þess í kaupverð og laun leikmannsins, yrði það sett í bann fyrir að virða ekki fjárhagsáætlun. Þetta miðast við að koma upp kerfi þar sem félög eyði ekki um efni fram," sagði Platini.

"Ef félag yrði sett í bann, kæmi það í hlut félaga í neðri deild að taka sæti þess ef þau uppfylltu tilsettar kröfur. Þetta yrði ekki gert til að skemma fyrir knattspyrnunni, heldur til að vernda hana. Fjöldi eigenda hafa farið þess á leit við mig að koma á svona kerfi og ég verð að gera það sem forseti sambandsins," sagði Platini.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×