Innlent

Beit í fingur lögreglu og braut

Sauðárkrókur Bitvargurinn lét til sín taka í lögreglubíl á Sauðárkróki.
Sauðárkrókur Bitvargurinn lét til sín taka í lögreglubíl á Sauðárkróki. Mynd/Óli Arnar Brynjarsson

Ríkissaksóknari hefur ákært tvo menn fyrir brot gegn valdstjórninni. Annar þeirra beit í fingur lögreglumanns með þeim afleiðingum að fingurinn brotnaði um liðamót.

Bitvarginum, sem er um tvítugt, er gefið að sök að hafa ráðist á mann við veitingastaðinn Mælifell á Sauðárkróki. Hann tók fórnarlambið hálstaki og herti að svo lokaðist fyrir öndunarveg. Sá sem fyrir árásinni varð missti meðvitund, en nærstaddir skárust þá í leikinn og losuðu tak árásarmannsins. Það var svo í lögreglubíl í kjölfar árásarinnar sem maðurinn beit lögreglumann í vísifingur hægri handar með þeim afleiðingum að fingurinn brotnaði og lögreglumaðurinn hlaut opin sár.

Sá sem tekinn var hálstaki fer fram á rúmlega 800 þúsund krónur í skaðabætur.

Hinum manninum, sem ríkissaksóknari ákærir, er gefið að sök að hafa ráðist á annan mann á götu á Sauðárkróki, kýlt hann í andlitið og ítrekað slegið hann með spýtu í andlit og líkama. Fórnarlambið skarst í framan, skrámaðist víða og hlaut bitfar á hendi. Þá brotnuðu fjórar tennur í honum og fimm tennur sprungu.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×