Erlent

Svínaflensa veldur vá gegn almannaheilsu

Lögreglumenn í Mexíkó bera andlitsgrímur til að forðast smit. Mynd/ AFP.
Lögreglumenn í Mexíkó bera andlitsgrímur til að forðast smit. Mynd/ AFP.
Alþjóða heilbrigðismálastofnunin lýsti nú í kvöld yfir vá gegn almannaheilsu um allan heim vegna svínaflensu sem greinst hefur í Mexíkó og Bandaríkjunum.

Margret Chan, framkvæmdastjóri stofnunarinnar, hvetur lönd heims til að herða heilbrigðiseftirlit og fylgjast vandlega með því hvort óvenjuleg tilfelli flensu greinist eða þá að hópar fólks sýkist. Einnig skuli kanna hvort óvenjuleg tilfelli lungnabólgu greinist. Stofnunin hefur ekki ákveðið hvort viðbúnaðarstig verði aukið úr 3. stigi en viðbúnaðarskalinn er frá 1 og upp í 6.

Í kvöld var greint frá því að átta skólabörn í New York í Bandaríkjunum hefðu greinst með inflúensu af A stofni sem líklegast væri væg svínaflensa. Einnig munu tvö tilfelli hafa greinst í Kansas-ríki.

Á tíunda tímanum í kvöld greindi svo Sky fréttastofan frá því að meðlimur í áhöfn British Airways farþegaflugvélar sem lenti á Heathrow-flugvelli í kvöld hafi verið fluttur á sjúkrahús með einkenni flensu og lungabólgu. Ekki er vitað hvort um svínaflensu er að ræða. Farþegaflugvélin var að koma frá Mexíkó.

Ríflega þúsund tilfelli svínaflensu hafa greinst í Mexíkó síðan í mars og talið að hægt sé að rekja nærri 70 dauðsföll til sjúkdómsins. Átta hafa greinst í Kaliforníu og Texas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×