Lífið

Kristinn með japanska ríkissjónvarpinu

Kristinn Hrafnsson var einn af íslensku blaðamönnunum sem aðstoðuðu erlend tökulið og blaðamenn á kosninganótt. Fréttablaðið/Vilhelm
Kristinn Hrafnsson var einn af íslensku blaðamönnunum sem aðstoðuðu erlend tökulið og blaðamenn á kosninganótt. Fréttablaðið/Vilhelm

„Þetta gekk alveg ljómandi vel og var bara býsna ánægjulegt,“ segir fréttahaukurinn Kristinn Hrafnsson. Hann var japanska ríkissjónvarpinu innan handar á nýliðinni kosninganótt en fjöldi erlendra blaða- og fréttamanna voru staddir hér á landi til að fylgjast með þessum sögulegu kosningum. Kristinn taldi að rúmlega tíu Íslendingar hefðu verið í svipuðu hlutverki og hann: að aðstoða erlenda blaðamenn og tökulið.

Japanar hafa verið gríðarlega áhugasamir um íslensku efnahagskreppuna og fylgst grannt með gangi mála. Japanarnir voru á Grand hóteli og sáu sigurræðu Jóhönnu Sigurðardóttur og sendu meðal annars út beint snemma á sunnudagsmorgninum. „Þetta var í kringum fimmtán mínútna innslag og var sýnt í einum vinsælasta sjónvarpsþættinum,“ útskýrir Kristinn en sökum tímamismunar var um að ræða kvöldþátt í Japan.

Japanska tökuliðið var búið að fylgjast með aðdraganda kosninganna í viku en hélt sig mest­megnis við höfuðborgarsvæðið. Kristinn segir að samstarfið hafi gengið stóráfallalaust, þrátt fyrir gjörólíka menningarheima og siði. „Þeir þurftu að læra töluvert af íslenskri útsjónarsemi,“ útskýrir Kristinn og þvertekur fyrir að íslenska leiðin sé slæm, en bætir því við að það hafi komið Japönum dálítið spánskt fyrir sjónir að fá ekki heildarkjörsókn á kosninganótt. „Já, þetta fór dálítið fyrir brjóstið á þeim.“

- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.