Innlent

Orra dæmd 300 þúsund frá 365-miðlum

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Orri Hauksson
Orri Hauksson Mynd/Stefán
Orra Haukssyni voru dæmdar 300 þúsund króna skaðabætur frá 365-miðlum ehf. í héraðsdómi Reykjavíkur í dag vegna ummæla sem birtust um hann í DV þann 29. september 2006. DV var þá í eigu 365-miðla. Auk þess voru ummæli um einkalíf Orra dæmd dauð og ómerk.

Blaðið birti grein undir fyrirsögninni Skilnaðarfaraldur skekur Skjá einn sem fjallaði um velgengni stöðvarinnar og einkalíf stjórnenda hennar. Orri var á þeim tíma stjórnarformaður Skjás eins. Framkvæmdastjóri stöðvarinnar höfðaði mál á síðasta ári vegna sömu greinar og vann.

Ummælin sem Orri krafðist að dæmd yrðu dauð og ómerk voru eftirfarandi:

„Á sama tíma er allt í tómu tjóni í einkalífi yfirmanna stöðvarinnar, þeirra […] og Orra Haukssonar."

„[…] gengur yfirmönnum stöðvarinnar illa að fóta sig í einkalífinu."

Í niðurstöðu dómsins kemur fram að Orri hafi lögvarða hagsmuni af því að ummælin verði dæmd dauð og ómerk. Var því orðið við kröfu hans þar um og honum einnig dæmdar ofangreindar bætur, auk þess sem 365-miðlum var gert að greiða málskostnað og standa straum af birtingu dómsins.

Í dómnum kemur fram að 365-miðlar hafi boðið Orra 400 þúsund króna bætur í sáttaskyni, en Orri krafðist 600 þúsund króna miskabóta með vöxtum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×