Fótbolti

200. mark Þýskalands á næsta leiti

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þýska landsliðið á góðri stundu.
Þýska landsliðið á góðri stundu. Nordic Photos / Getty Images

Þjóðverjar geta um helgina bæst í fámennan hóp landsliða í Evrópu sem hafa skorað 200 mörk í leikjum í undankeppni HM frá upphafi.

Sex lið hafa náð þessum áfanga nú þegar en líklegt verður að teljast að Þjóðverjar bætist í þennan hóp á laugardaginn er liðið mætir Liechtenstein í undankeppni HM 2010.

Þjóðverjar hafa skorað 199 mörk í alls 68 leikjum í undankeppni HM en hinar sex þjóðirnar hafa þurft mun fleiri leiki til að ná slíkum hæðum.

Hollendingar hafa skorað flest mörk, 229 talsins, í 100 leikjum.

Það sem er enn merkilegra er að Þjóðverjar hafa aðeins tapað tveimur af þessum 68 leikjum og gert sextán jafntefli.

Þjóðverjar voru ósigraðir í undankeppni HM allt þar til liðið mætti Portúgal þann 16. október 1985 í Stuttgart. Portúgal vann leikinn, 1-0, en Vestur-Þjóðverjar voru þá þegar búnir að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni í Mexíkó.

Hann tapleikurinn er einn frægasti landsleikur síðari ára. Það var í undankeppni HM 2002 og var Þýskalandi í riðli með Englandi. Þessi lið mættust þann 1. september 2001 á Ólympíuleikvanginum í München og unnu þeir ensku 5-1 sigur þar sem Michael Owen skoraði þrennu.

Aðeins eitt lið komst beint áfram í úrslitakeppnina í Suður-Kóreu og Japan og náði England efsta sæti riðilsins á hagstæðri markatölu. 

Þjóðverjum gekk svo betur í sjálfri úrslitakeppninni þar sem liðið komst í úrslitaleikinn en tapaði fyrir Brasilíu - sem vann England í fjórðungsúrslitunum.

Josef Rasselnberg skoraði fyrsta mark Þýskalands í leik í undankeppni HM árið 1934 en markahæstur Þjóðverja í slíkum leikjum er Karl-Heinz Rummenigge með þrettán mörk.

Þýskaland hefur í sex skipti ekki tekið þátt í undankeppni HM. Liðið þurfti þess ekki fyrir keppnirnar 1978 og 1994 þar sem það var ríkjandi heimsmeistari. Þýskaland var svo gestgjafi í úrslitakeppni HM árin 1958, 1974 og 2006 og tók því ekki þátt í undankeppninni.

Þýskaland tók heldur ekki þátt í undankeppni HM 1950 enda síðari heimsstyrjöldinni þá nýlokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×