Innlent

Kreppan dýpkar umtalsvert frestist Helguvík

Sérfræðingar fjármálaráðuneytis telja að ef Helguvíkurframkvæmdir frestast verði samdráttur í efnahagslífinu þrjú prósent á næsta ári en ekki 1,9 prósent. Samtök atvinnulífsins hóta því að leita til dómstóla afturkalli umhverfisráðherra ekki úrskurð sinn um Suðvesturlínu, sem þau telja ólögmætan og setja stöðugleikasáttmálann í uppnám.

Samtök atvinnulífsins segja að úrskurður Svandísar Svavarsdóttur muni tefja framkvæmdaáform svo mörgum mánuðum skiptir. Sjálf telur Svandís að töfin verði 3-4 mánuðir en minnir á að margt annað sé óklárt varðandi Helguvík, bæði fjármögnun og orkuöflun.

Samtök atvinnulífsins skoruðu á hana í morgun að afturkalla úrskurðinn. Að öðrum kosti myndu þau bera fram kvörtun við umboðsmann Alþingis og eða leita leiða til að fá úrskurðinum hnekkt fyrir dómstólum. Þau telja úrskurðinn ólögmætan og færa fyrir því tvennskonar rök: Að hann hafi verið kveðinn upp löngu eftir að tilskilinn tímafrestur var útrunninn og að lagareglur um málsmeðferð og andmælarétt hafi ekki verið virtar.

Í bréfi, sem einnig er sent forsætisráðherra, minna samtökin á það loforð ríkisstjórnarinnar í stöðugleikasáttmálanum að greiða götu framkvæmda vegna álvers í Helguvík og að engar hindranir yrðu af hálfu stjórnvalda eftir 1. nóvember.

Þegar Svandís var í hádeginu spurð um fullyrðingar Samtakanna um ólögmæti úrskurðarins, og að hann bæri að hunsa, svaraði hún að það væri ekki skynsamlegt að setja undir sig haus og leggjast í skotgrafahernað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×