Innlent

Kannast ekki við áhuga á Vaðlaheiði

kristján möller
kristján möller

Kristján Möller samgönguráðherra segir það einfaldlega rangt að búið sé að forgangsraða samgöngumannvirkjum þannig að Vaðlaheiðargöng verði efst í forgangsröðinni.

„Lífeyrissjóðir hafa rætt við mig um fjármögnun ýmissa verkefna, til dæmis Vaðlaheiðarganga og Suðurlandsvegar. Forsvarsmenn lífeyrissjóðsins Stapa og aðrir aðilar komu til mín um áramótin og lýstu áhuga á að fjármagna Vaðlaheiðargöng,“ segir Kristján.

Kári Arnór Kárason, framkvæmdastjóri Stapa, segir að fjármögnun Vaðlaheiðarganga hafi aldrei verið rædd innan Stapa. „Því hefur aldrei verið lýst yfir af okkar hálfu að við ætlum að koma að þessari fjármögnun.“

Sjálfur tók hann þátt í hópi sem koma átti með hugmynd að mögulegri fjármögnun á göngunum. „Það hafði hins vegar ekkert með það að gera að ég væri framkvæmdastjóri Stapa.“

Sigurður Freysson, stjórnarformaður Stapa, segir þetta aldrei hafa verið rætt innan stjórnarinnar. „Við vitum nákvæmlega ekki neitt um þessi mál annað en það sem ráðherrann segir í fréttum.“

Sveitarstjórnarmenn á Suður-landi héldu fund með samgönguráðherra í gær þar sem skorað var á hann að setja breikkun Suðurlandsvegar í forgang. Kristján sagði í Morgunblaðinu um helgina að gögn vegna Vaðlaheiðargagna væru svo gott sem tilbúin og væri því hægt að ráðast í þá framkvæmd fljótlega. Breikkun Suðurlandsvegar væri komin styttra á leið. Vinna við undirbúning Suðurlandsvegar er í fullum gangi, að sögn Kristjáns, og stefnt er að því að bjóða út fyrsta kaflann, sem nær frá Reykjavík að Litlu Kaffistofunni, sem fyrst.

Kristján lofaði á fundi með sveitarstjórnarmönnum á Suðurlandi 25. mars, að verkið yrði boðið út í júní eða júlí, að sögn Sigurðar Inga Jóhannssonar, alþingismanns og oddvita Hrunamannahrepps.

„Fundarmenn klöppuðu fyrir honum eftir að hann lofaði þessu en það virðist bara hafa verið kosningablöff.“ Hann segir að það verði að forgangsraða í skipulagsmálum þar sem lítið fé sé til framkvæmda nú. „Vaðlaheiðargöng eru ágætis framkvæmd en við þurfum að ráðast í það sem er mikilvægast,“ segir Sigurður og á þá við breikkun Suðurlandsvegar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×