Innlent

Ingibjörgu þakkað fyrir störf í þágu jafnaðarstefnunnar

Anna Pála Sverrisdóttir, formaður Ungra jafnaðarmanna.
Anna Pála Sverrisdóttir, formaður Ungra jafnaðarmanna.
Ungir jafnaðarmenn senda Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sínar allra bestu og hlýjustu kveðjur fyrir störf í þágu jafnaðarstefnunnar. Í tilkynningu frá félaginu segir að Ingibjörg hafi hvergi dregið af sér í fjölda ára og framlag hennar til íslensks samfélags sé ómetanlegt. Hún hafi sameinað félagshyggjufólk við stjórn Reykjavíkurborgar við að gjörbreyta þar stjórnarháttum og innleitt fagleg vinnubrögð í áður úreltu og gamaldags bittlingakerfi.

,,Eftir hrunið í október gagnrýndu Ungir jafnaðarmenn ýmislegt í störfum þáverandi ríkisstjórnar en hafa þrátt fyrir það skilning á hversu gríðarlega erfið staða blasti við Samfylkingunni í ríkisstjórn. Ingibjörg sem utanríkisráðherra fékk í sinn hlut að leysa úr erfiðustu milliríkjadeilu Íslendinga á síðustu áratugum og kom henni farsællega í farveg í stað einangrunar sem annars blasti við."

Ungir jafnaðarmenn óska Ingibjörgu sem þeir segja farsælan og fórnfúsan leiðtoga góðs bata og vonast eftir að sjá hana sem fyrst aftur í baráttunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×