Innlent

Vill 2,4 milljarða úr þrotabúi Lehman

Íslenskur fyrrum yfirmaður hjá Lehman Brothers fjárfestingarbankanum hefur gert tæplega nítján milljóna bandaríkjadala kröfu í þrotabú bankans. Krafan jafngildir 2.355 milljónum króna.

„Það kemur fram í kröfunni út á hvað hún gengur," sagði Sigurbjörn Þorkelsson þegar Fréttablaðið ræddi við hann í gærkvöldi. Hann var þá staddur í Hong Kong.

Sigurbjörn staðfesti að hafa gert kröfu í þrotabúið, en vildi ekki skýra tilurð hennar nánar.

Hann var ráðinn yfirmaður hlutabréfaviðskipta hjá Lehman Brothers á Asíumarkaði í október 2007, og hafði því gegnt starfinu í tæpt ár þegar bankinn fór í þrot.

Sigurbjörn sagði í gær „frekar ólíklegt" að hann muni fá alla upphæðina sem hann krefst úr þrotabúi síns fyrrum vinnuveitanda. Spurður hvort hann telji líklegt að fá eitthvað sagði hann: „Hver veit? Ég hef ekkert um þetta að segja."

Upphæðin er ekki byggð á kaupréttarákvæðum, sagði Sigurbjörn, en vildi ekki tjá sig frekar um á hverju tæplega 2,4 milljarða króna launakrafa væri byggð.

Í kröfu Sigurbjörns, sem er opinbert gagn sem Fréttablaðið hefur undir höndum, kemur fram að hann fékk bónusgreiðslur frá Lehman í formi hlutabréfa í bankanum, auk þess sem hann nýtti sér kauprétt í bréfum bankans. Fram kemur í kröfu Sigurbjörns að eign hans á bréfunum var bundin í ákveðinn tíma. Hann mátti því ekki selja elstu bréfin sem krafan byggist á fyrr en í lok nóvember 2008, og þau nýjustu ekki fyrr en í lok nóvember 2012.

Sigurbjörn tók við sem yfirmaður Lehman Brothers á Asíumarkaði árið 2007, en hóf fyrst störf fyrir bankann árið 1992. Hann starfaði þar síðan, með einu fjögurra ára hléi á árunum 1994 til 1998, og varð einn af framkvæmdastjórum Lehman árið 2001.

Gjaldþrot Lehman Brothers hinn 15. september í fyrra skók fjármálamarkaði um heim allan og er gjarnan talið marka upphaf hinnar eiginlegu heimskreppu.

- bj






Fleiri fréttir

Sjá meira


×