Innlent

Evrópumálið þokast áfram á þingi

Búist er við að tillögur stjórnar og stjórnarandstöðu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu verði sameinaðar í utanríkismálanefnd og komist til seinni umræðu á alþingi á fyrstu dögum júlímánaðar.

Nú er einn mánuður og fimm dagar síðan þingsályktunartillaga ríkisstjórnarinnar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu var lögð fram á Alþingi. Þegar tillagan var síðan formlega rædd á alþingi, þremur dögum síðar, lögðu stjórnarandstöðuflokkarnir fram keimlíka tillögu þar sem lagt er til að fela eigi utanríkismálanefnd að undirbúa mögulega umsókn og að alþingi stjórni í raun undirbúningi aðildarviðræðna, en ekki ríkisstjórnin.

Strax sama dag lýsti Steingrímur J. Sigfússon því yfir að best væri að bræða saman tillögur stjórnar og stjórnarandstöðu og Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hefur einnig sagt mikilvægt að sameina kjarnann úr báðum tillögum.

Eftir snörp orðaskipti í fyrri umræðu á þinginu fór málið inn í utanríkismálanefnd sem hefur á síðustu vikum fundað nær daglega og fengið til sín fjölda gesta. Um eða yfir hundrað athugasemdir hafa verið gerðar við þingsályktunartillögurnar. Nefndin sat á fundi nú fyrir hádegi. Árni Þór Sigurðsson, formaður nefndarinnar, segir stefnt að því að bræða saman þessar tvær tillögur og að þær komi vonandi aftur inn í þingið á fyrstu dögum júlímánaðar.

Dómsmálaráðherra Svíþjóðar sagði í fréttum Ríkisútvarpsins í gær æskilegt að hugsanleg umsókn Íslands bærist sem allra fyrst vilji Íslendingar aðstoð Svía í umsóknarferlinu. Svíar verða í forystu fyrir Evrópusambandið frá fyrsta júlí og út árið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×