Innlent

Viðskiptaráðherra segir Ísland vel ráða við afborganir vegna Icesave

Sigríður Mogensen skrifar

Fjármálaráðherra segir að gögn sem fylgja með Icesave frumvarpinu sýni að engin önnur niðurstaða sé í boði. Viðskiptaráðherra segir að skuldbindingin sé íslensku efnahagslífi alls ekki ofviða.

Fréttamannafundi ríkisstjórnarinnar lauk nú rétt fyrir fréttir. Þar færðu fjármálaráðherra og forsætisráðherra rök fyrir frumvarpinu sem nú hefur verið lagt í hendur þingsins. Frumvarpið gengur út á að veita fjármálaráðherra heimild fyrir hönd ríkissjóðs til að ábyrgjast lán frá hollendingum og bretum vegna Icesave.

Á fundinum var leynd aflétt af 68 trúnaðarskjölum sem varða atburðarrás tengda Icesave málinu. Þá er forsaga málsins rakin, allt frá einkvavæðingu bankanna.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði meðal annars að þau gögn sem fylgja frumvarpinu sýni að engin önnur niðurstaða sé í boði. Íslensk stjórnvöld hafi margoft fullvissað bresk og hollensk stjórnvöld um að skuldbindingarnar yrðu efndar. Þá hafi íslensk stjórnvöld ekki fengið neinar undirtektir þegar kom að lögfræðilegum rökum málsins. Dómstólaleiðin hafi ekki verið fær.

Stóra spurning er hins vegar hvort Ísland ráði við þessar miklu skulbindingar.

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, segir Icesave samninginn íslensku þjóðarbúi alls ekki ofviða. Í því samhengi benti hann meðal annars á að greiðslur vegna Icesave lánsins verði 2,5% af útflutningstekjum Íslands næstu 15 árin.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×