Innlent

Sjálfstæðisflokkurinn eins og vönkuð kvíga

Össur Skarphéðinsson.
Össur Skarphéðinsson.
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra gerir Bjarna Benediktsson formann Sjálfstæðisflokksins að umtalsefni á heimasíðu sinni í dag. Þar segir hann hinn nýja formann einkum hafa getið sér góðs orðs fyrir einstakan hæfileika til að skipta oft um skoðun. Össur segir að frá landsfundi hafi Bjarna tekist að vera jafnoft á móti skattahækkunum, og með þeim. Það sé út af fyrir sig afrek á svo stuttum formannsferli.

Össur segir síðan sama hringlandaháttinn birtast um ESB. „Þar er Sjálfstæðisflokkurinn einsog vönkuð kvíga, sem veit ekki hvað snýr upp eða niður," skrifar ráðherrann og sparar ekki stóru orðin.

„Sunnudeginum fyrir landsfund lýsti þannig nýi formaðurinn með landsföðurlegu yfirbragði eindregnu fylgi við ESB. Tæpri viku síðar, að kveldi þess dags sem Bjarni réri á silfurskeiðunum í formannsstólinn, skipti hann algerlega um skoðun. Þá sagði hann sjónvarpsáhorfendum með sakbitnu vandræðabrosi strákpjakks að nú teldi hann langbest að Ísland stæði utan ESB," skrifar Össur.

Hann segir að svona hringsnúning geti strákpjakkar úr heimastjórnararminum, sem halda að pólitík sé bara hversdagsleg strákaslagsmál blönduð hrekkvísu gríni, leyft sér.

„En ekki formaður. Það þarf helst að vera eitthvað að marka það sem kjörnir forystumenn í flokkum segja, þó hugsanlega gildi nú annað um Sjálfstæðisflokkinn."

Hægt er að lesa pistil Össurar hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×