Innlent

Óstarfhæf bæjarstjórn í Grindavík

Valur Grettisson skrifar
Deilt var um hús bæjarstjóra Grindavíkur síðasta sumar. Þá sprakk bæjarstjórnin.
Deilt var um hús bæjarstjóra Grindavíkur síðasta sumar. Þá sprakk bæjarstjórnin.

Meirihlutinn í bæjarstjórn Grindavíkur er orðinn að minnihlutastjórn eftir að Samfylkingarmaðurinn Garðar Páll Vignisson sagði sig úr Samfylkingunni og gekk yfir í Vinstri græna. Fresta þurfti bæjarstjórnarfundi vegna þessa og því er bæjarstjórnin óstarfhæf.

Þá sagði Björn Haraldsson sig úr Frjálslyndaflokknum og gekk einnig í Vinstri græna. VG átti engan mann í síðustu kosningum.

Þá er kominn upp sú sérkennilega staða að meirihluti bæjarstjórnar Grindavíkur, sem eitt sinn samanstóð af Samfylkingu og Framsókn, er nú minnihlutastjórn studd af vinstri grænum.

Þá er bæjarstjóri Grindavíkur, Samfylkingarkonan Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, búinn að segja af sér sem bæjarfulltrúi. Það gerði hún á síðasta fundi bæjarstjórnar.

Hún situr engu að síður áfram sem bæjarstjóri.

Fresta þurfti síðasta bæjarstjórnarfundi þegar kjósa átti í bæjarráð og má túlka það sem að stjórni standi vægast sagt höllum fæti, hugsanlega er hún fallin, í það minnsta óstarfhæf.

Ástæðan fyrir því að Jóna Kristín á að hafa sagt af sér sem bæjarfulltrúi var til þess að fá varamann inn. Það gerði hún til þess að sækja sér liðstyrk samkvæmt heimildum Vísis.

Margt hefur gengið á í bæjarstjórn Grindavíkur. Síðast var það um páskana þegar næstum slitnaði upp úr samstarfinu þegar Samfylkingin reyndi að ráða Garðar Pál sem skólastjóra grunnskóla þar í bæ.

Frá því var horfið og samstarfið gat haldið áfram.

Þar áður slitnaði upp úr samstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar þegar í ljós kom að gerður var umdeildur ráðningasamningur við þáverandi bæjarstjóra.

Hann fékk greitt laun út kjörtímabilið og svo var húsið keypt af honum. Sá bæjarstjóri var ráðinn og því ópólitískur. Þannig hafði það verið í fjölda ára þangað til Jóna Kristín tók við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×