Innlent

Tvö þúsund félög hunsa skattstjóra

Skúli Eggert Þórðarson
Skúli Eggert Þórðarson

Ríkisskattstjóri hefur sektað á þriðja hundrað hlutafélaga fyrir að skila ekki ársreikningum fyrir árið 2006. Nú er verið að undirbúa aðgerðir gegn nærri tvö þúsund félögum sem ekki hafa skilað ársreikningum fyrir 2007.

Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri segir að nú verði farið í að senda félögunum fyrsta áminningarbréfið vegna reikninga síðasta árs. Að líkindum verði því öllu færri sem komi til með að verða sektaðir á endanum fyrir það árið.

Ársreikningaskrá fékk í fyrsta sinn í fyrra heimildir til að beita sektarúrræðum gegn fyrirtækjum sem ekki skila reikningum sínum. Ríkisskattstjóri segir þetta ekki duga til.

„Vandamálið er að menn virða ekki þessa skyldu. Besta úrræðið væri að taka félögin af skrá, það myndi hreyfa við fólki," segir hann.

Ríkisskattstjóri þarf að senda nokkur áminningarbréf og að lokum sektarboð, áður en menn „kippast við og skila reikningum. Svo vilja þeir fá sektina niðurfellda," segir Skúli.

En væru félögin tekin af skrá fyrir trassaskapinn þýddi það að þau yrðu rekin á ábyrgð eigandans. Þau bæru því ekki „takmarkaða ábyrgð" heldur yrði eigandinn sjálfur gjaldþrota, ef illa fer.

Ríkisskattstjóri hefur, óformlega, bent fjármálaráðuneytinu á að þessi úrræði skorti og vakið athygli á þessu í ræðu á þessu ári.

Greint var frá því í blaðinu á þriðjudag að Hermann Guðmundsson, forstjóri N1, ræddi þennan vanda. Hermann telur atvinnurekendur eiga að sinna þessari skyldu sinni. Að öðrum kosti skuli yfirvöld leysa upp slík félög.

„Ég er sammála honum um þetta. Það er brýnt að Ársreikningaskrá hafi heimild til að afskrá félagið, leysa það upp sem hlutafélag. Eins og stendur getur Ársreikningaskrá sektað félag um 250.000 krónur fyrir að skila ekki eitt árið. Dugi þetta ekki til fer sektin í 500.000, árið eftir. Þessar fjárhæðir breyta litlu, séu menn staðráðnir í að skila ekki upplýsingunum," segir Skúli.

klemens@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×