Innlent

Prentlög og útvarpslög verða samræmd

Unnið er að heildarendurskoðun lagaumhverfis fjölmiðla þar sem horft verður til eignarhalds meðal annars. Katrín Jakobsdóttir á von á að frumvarp komi fram á haustþingi.fréttablaðið/anton
Unnið er að heildarendurskoðun lagaumhverfis fjölmiðla þar sem horft verður til eignarhalds meðal annars. Katrín Jakobsdóttir á von á að frumvarp komi fram á haustþingi.fréttablaðið/anton

Unnið er að heildarendurskoðun löggjafar fyrir fjölmiðla í menntamálaráðuneytinu og að öllum líkindum verður frumvarp lagt fyrir Alþingi í haust. Áður verður haft samráð við hagsmunaaðila og almenning.

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra segir að mikil vinna hafi verið unnin innan ráðuneytisins. Fyllsta þörf sé á heildarendurskoðun í þessum efnum og því að samræma þau lög sem gilda um fjölmiðla hér á landi. Núverandi löggjöf er tvíþætt: annars vegar prentlög fyrir prentmiðla, en málefni þeirra eru undir dómsmálaráðuneytinu, og hins vegar útvarpslög fyrir ljósvakamiðla. Þau heyra undir menntamálaráðuneytið.

Katrín sagði í svari við fyrirspurn á Alþingi í ágúst að samræma þyrfti þessi lög. „Nokkurt misræmi er að finna í þessum lögum þegar kemur til dæmis að ábyrgðarreglum og ég tel mjög mikilvægt að þessi lög verði skoðuð samhliða og reynt að samræma þær reglur sem þar er að finna um fjölmiðla.“

Katrín minnir á að prentlögin séu frá árinu 1956 og því nauðsyn á að endurskoða þau. Grundvallarbreyting hafi orðið á Evróputilskipun um fjölmiðla í lok síðasta árs og gildandi lög hér á landi séu um margt úrelt. Skilgreiningar í þeim séu of þröngar og ekki tekið á tækninýjungum. Í gildandi prentlögum sé til dæmis ekki minnst á netið „og ef við reiknum með því að það sé ekki bóla þá er ágætt að fara að koma því í lög“.

Meðal þess sem er til skoðunar er ákvæði um eignarhald á fjölmiðlum. Ráðherra segir að þar sé byggt á vinnu sem fyrir liggur. Þar verði skýrsla þverpólitískrar nefndar frá árinu 2005, sem skoðaði eignarhald fjölmiðla, höfð til hliðsjónar. Þá þurfi að skoða breytingu á gildissviði nokkurra annarra laga, til dæmis hvað snertir höfundarrétt.

Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, spurði ráðherra út í frumvarpið á Alþingi. Hann sagði við það tækifæri að hann vonaðist eftir því að hægt væri að ræða þessi mál án sleggjudóma eða tenginga við einhverjar persónur. Gagnsæi væri ákaflega mikilvægt og þar væri ríkisfjölmiðillinn ekki undanskilinn.

kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×