Íslenski boltinn

Haraldur Freyr til Kýpur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Haraldur Freyr Guðmundsson í leik með íslenska U-21 landsliðinu.
Haraldur Freyr Guðmundsson í leik með íslenska U-21 landsliðinu. Nordic Photos / Bongarts

Haraldur Freyr Guðmundsson hefur komist að samkomulagi við Apollon FC frá Limassol á Kýpur um að leika með liðinu næsta eina og hálfa árið.

Fram kemur á heimasíðu Álasunds að félögin hafi náð að semja um kaupverð en Haraldur kom til Kýpurs í gær.

„Við erum búnir að komast að samkomulagi og er verið að vinna í pappírsmálunum núna. Það verður væntanlega skrifað undir á morgun," sagði Haraldur Freyr í samtali við Vísi. „Ég er búinn að fara í gegnum læknisskoðun og þetta ætti því allt að vera klappað og klárt."

Hann segir að þetta hafi átt sér stuttan aðdraganda. „Umboðsmaðurinn minn hringdi í mig á mánudaginn og sagði mér frá þessu. En mér líst ótrúlega vel á þetta þó svo að ég viti ekki mikið um knattspyrnuna á Kýpur."

„Eins og flestir veit ég að Kýpur átti lið í riðlakeppni Meistaradeildarinnar, Anorthosis Famagusta, og mér sýnist að gæðin á knattspyrnunni hér séu þokkaleg. En ég sé leik með liðinu á morgun og þá veit ég meira um þetta."

„Ég þekkti ekki marga leikmenn hjá liðinu en kannaðist þó við eitt nafn - Haruna Babangida sem hefur leikið með nígeríska landsliðinu og var hjá bæði Ajax og Barcelona."

Haraldur gekk til liðs við Álasunds frá Keflavík árið 2004 og hefur leikið í Noregi undanfarin fjögur ár.

„Ég átti eitt ár eftir af samningi mínum í Noregi og var búinn að gefa í skyn að ég vildi fá að prófa eitthvað annað. Þeir hafa því viljað selja mig nú til að missa mig ekki án greiðslu," sagði Haraldur.

Hann sagði einnig að þjálfari Apollon hafi lagt hart að sér að ganga frá samningi sem fyrst við liðið.

„Liðið á bikarleik gegn Anorthosis á miðvikudaginn og hann vill endilega nota mig þá. En ég er ekki einu sinni með takkaskóna með mér þannig að við skulum sjá til."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×