Innlent

Björn: Stjórnlagaþing kostar allt að 1,5 milljarð

Björn Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrum ráðherra.
Björn Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrum ráðherra.
Björn Bjarnason segir að frumvarp til stjórnarskipunarlaga sé skrýtið frumvarp því það geri ráð fyrir breytingum á stjórnarskránni en boði jafnframt til stjórnlagaþings sem eigi að gera ennfrekari breytingar á stjórnarskránni. Björn segir í pistli á heimasíðu sinni að kostnaður við stjórnlagaþing geta numið allt að 1,5 milljarði króna.

Björn undrast að þingmenn sem hafi árum saman kvartað undan áhrifaleysi Alþingis leggja nú fram fram tillögu um að færa stjórnarskrárvald frá þinginu til sérstaks stjórnlagaþings.

,,Miklu nær væri að halda þessu valdi hjá alþingi en efna síðan til þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingu, sem þingið samþykkti."

Sjálfstæðismenn hafa ekki beitt málþófi

Björn segir furðulegt að hlusta ásakanir í garð sjálfstæðismanna um málþóf vegna þess að þeir hafi rætt um frumvarp um úttekt á séreignasparnaði á þingi fram á kvöld í gær.

,,Við sjálfstæðismenn höfum ekki beitt málþófi á þessu þingi og ekki tekið neitt mál í gilsingu eins og gjarnan er gert með því að beita þessari aðferð. Í þingflokki okkar eru 26 þingmenn og vilji margir tala í einhverju máli tekur það vissulega sinn tíma. Að líta þannig á, að aðeins andstæðingar í stjórnmálum megi nýta sér rétt til andsvars, stenst ekki," segir Björn.

Gagnrýnir fréttamenn Rúv

Björn segir að Ríkisútvarpið haldi úti tveimur fréttamönnum til að segja frá því sem gerist á Alþingi. ,,Fréttir um að við sjálfstæðismenn séum með málþóf endurspegla líklega, að fréttamennirnir telja sig ekki hafa frá neinu að segja, þegar við sjálfstæðismenn tölum, því að frásagnir þeirra byggjast ekki á því, hvað er fréttnæmt, heldur hverjir tala."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×